Viðskipti innlent

RÚV mun sýna úr­slita­mót EM karla og kvenna í knatt­spyrnu

Eiður Þór Árnason skrifar
Undankeppni EM karla í knattspyrnu verður þó eingöngu sýnd á streymisveitunni Viaplay. 
Undankeppni EM karla í knattspyrnu verður þó eingöngu sýnd á streymisveitunni Viaplay.  Vísir/vilhelm

RÚV hefur tryggt sér sýningarréttinn á úrslitamótum Evrópukeppni (EM) karla í knattspyrnu árin 2024 og 2028. Evrópumótið 2024 verður haldið í Þýskalandi en ekki hefur verið ákveðið hvar mótið verður haldið 2028. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Áður hafði RÚV tryggt sér sýningarréttinn á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Englandi sumarið 2022 þar sem íslenska kvennalandsliðið hefur tryggt sér sæti. Er það í fjórða skipti sem íslenska kvennalandsliðið kemst á EM.

24 lið komast á lokamót EM karla, annað hvort úr riðlakeppni EM eða umspili Þjóðadeildar UEFA og hafa þjóðir því tvö tækifæri til að komast á EM að þessu sinni.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á EM í sumar en töpuðu naumlega fyrir Ungverjalandi í umspili um laust sæti. U21-landslið karla hefur hins vegar í annað sinn tryggt sér sæti í lokakeppni EM sem hefst í mars og verður sýnd á RÚV.

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða, að þessir stóru og mikilvægu íþróttaviðburðir á heimsvísu verði aðgengilegir öllum hér á landi. Það er eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins að leggja rækt við íþróttir og sinna stórviðburðum á borð við úrslitamót EM karla og kvenna í knattspyrnu,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í tilkynningu.

Fyrr í vikunni var greint frá því að streymisveitan Viaplay hafi tryggt sér sýningarétt á undankeppni EM karla í knattspyrnu 2024, HM 2026 og EM 2028 auk Þjóðadeildarinnar sem fer fram 2023, 2025 og 2027. Sá samningur nær ekki til úrslitamóts EM karla í knattspyrnu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×