Aðalstarf Lars verður að styðja við Arnar Þór Viðarsson, Eið Smára Guðjohnsen og þjálfarateymi landsliðsins. Lars hefur þegar hafið störf.
Lars þekkir vel til hér á landi en hann stýrði íslenska landsliðinu með frábærum árangri á árunum 2012-16. Síðast var hann þjálfari norska karlalandsliðsins. Hann hefur einnig þjálfað sænska og nígeríska landsliðið.
„Ég er virkilega ánægður og hlakka til að vinna aftur með íslenska landsliðinu, enda á ég margar góðar minningar frá tíma mínum sem þjálfari liðsins. Vonandi get ég hjálpað Arnari og þjálfarateyminu, og miðlað af minni reynslu til að styðja við starfsliðið og leikmennina,“ segir Lars í fréttatilkynningu á heimasíðu KSÍ.
„Þar til tekst að koma böndum á kórónaveirufaraldurinn mun ég starfa með Arnari og landsliðinu eins vel og hægt er í gegnum stafrænar lausnir. Vonandi get ég ferðast til Íslands á næstu mánuðum til að taka enn virkari þátt í starfinu og til að fínstilla samstarfið með Arnari og starfsliðinu.“
Fyrsta verkefni landsliðsins á árinu, og jafnframt fyrsta verkefnið undir stjórn nýs þjálfarateymis, eru þrír leikir í undankeppni HM 2022 í næsta mánuði. Ísland mætir þá Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein á útivelli.