Erlent

Fjögurra metra langur krókódíll drepinn eftir að veiðimaður hverfur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Skemmdir á bátnum báru þess merki að þar hefði krókódíll verið á ferð.
Skemmdir á bátnum báru þess merki að þar hefði krókódíll verið á ferð.

Yfirvöld í Queensland í Ástralíu hafa fangað og drepið fjögurra metra langan krókódíl sem er grunaður um að hafa orðið veiðimanni að bana. Mannsins hafði verið leitað síðan á fimmtudag, eftir að hann skilaði sér ekki heim.

Bátur mannsins, sem var 69 ára, fannst í Gayundah Creek á föstudag; á hvolfi og skemmdur, og samkvæmt umhverfis- og vísindastofnun landsins (DES) er talið „afar líklegt“ að krókódíll hafi komið við sögu.

Á föstudagskvöld fundust líkamsleifar skammt frá og telur lögregla að um sé að ræða manninn sem var saknað.

Rannsóknir verða hins vegar gerðar til að staðfesta þetta.

Leit að fleiri líkamspörtum stendur enn yfir en fjögurra metra langur krókódíll var fangaður ekki langt frá bátnum. Búið er að aflífa hann og flytja á meginlandið. 

Hræið verður rannsakað til þess að komast að því hvort krókódíllinn var valdur að dauða mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×