Sigríður segir að þau eftirköst sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkisslögreglustjóra, lýsti í samtali við fréttastofu í dag séu í nokkru samræmi við fyrstu niðurstöður úr þeim rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar.
„Þær ríma nokkuð vel við þær niðurstöður sem við fengum úr fyrstu bylgjunni þegar við spurðum fólk um líðan þeirra þremur til sex mánuðum eftir að þau veiktust. Þá voru tæp sjötíu prósent sem greindu frá því að þau finndu fyrir þreytu, helmingur fann fyrir verkjum og mæði og um tuttugu og fimm til þrjátíu prósent fann fyrir skerðingu á bragð og lyktarskini,“ sagði Sigríður í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Þessar niðurstöður séu í samræmi við sambærilegar erlendar rannsóknir. Sigríður segir að enn sé erfitt að segja til um það hversu langvarandi afleiðingarnar eru.
„Við vitum það náttúrlega ekki í raun. Það er eitt ár frá fyrsta smiti núna í þessari viku og við vitum ekki hversu langvarandi þessi áhrif eru. En í Bretlandi þá hafa þeir búið til leiðbeiningar um meðferð sjúklinga með langvinnt covid og þeir hafa skilgreint það sem einkenni sem að vara í framhaldi af sjúkdómnum í allt að tólf vikur eða lengur og sem sem sagt ekki er hægt að skýra með öðrum sjúkdómum,“ segir Sigríður.
Rannsókn heldur áfram
Til stendur að halda áfram að rannsaka langvarandi afleiðingar covid hér á landi. „Við erum að hefja rannsókn núna þar sem við ætlum að leggja spurningalista aftur fyrir fólk núna ári eftir að það veiktist og við ætlum jafnframt líka að skoða líðan þeirra sem að veiktust núna í annarri og þriðju bylgju,“ segir Sigríður.
Í raun séu engar vísbendingar ennþá um það hversu lengi eftirköst geti varað. „Erlendar rannsóknir hafa í raun allar sagt það sama, við vitum ekki hversu lengi þessi einkenni munu vara en við sjáum það yfirleitt að þau minnka með tímanum,“ segir Sigríður og ítrekar um leið mikilvægi þess að halda áfram öflugum sóttvörnum, faraldrinum sé ekki lokið.