Umfjöllun og viðtöl: Fram - KA 26-22 | Ólafssynir kláruðu KA-menn Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 28. febrúar 2021 17:30 Þorgrímur Smári Ólafsson skoraði átta mörk gegn KA. vísir/elín björg Fram varð fyrsta liðið í febrúar til að vinna KA þegar liðin áttust við í Safamýrinni í dag. Lokatölur 26-22, Fram í vil. Með sigrinum jafnaði Fram Stjörnuna að stigum í 8. sæti deildarinnar. KA er enn í því þriðja en liðið hefur verið á svakalegri siglingu að undanförnu. Lárus Helgi Ólafsson var besti maður vallarins en hann varði nítján skot í marki Fram, eða 46 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Bróðir hans, Þorgrímur Smári, var markahæstur í liði Fram með átta mörk. Áki Egilsnes skoraði sex mörk fyrir KA og Nicholas Satchwell varði fimmtán skot í marki gestanna (37 prósent). KA byrjaði leikinn betur og skoraði fyrstu tvö mörkin. Fram skoraði ekki sitt fyrsta mark fyrr en eftir átta mínútur en eftir þessa byrjunarörðugleika gekk sóknarleikur heimamanna mjög vel það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, og byrjaði seinni hálfleikinn svo miklu betur. Heimamenn skoruðu fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og komust fimm mörkum yfir, 17-12. Jónatan Magnússon, þjálfari KA, tók þá leikhlé sem svínvirkaði. KA skoraði fjögur mörk í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 17-16. Þá kom Þorgrímur Smári Ólafsson aftur inn á og hjó á hnútinn í Fram-sókninni. Hann skoraði, gaf stoðsendingar og fiskaði víti. Fram sleit sig aðeins frá KA og komst mest fimm mörkum yfir, 23-18. Gestirnir fengu tækifæri til að minnka muninn á lokakaflanum en Lárus Helgi varði hvað eftir annað frá þeim úr góðum færum. Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 26-22, og Fram stöðvaði því sigurgöngu KA. Lárus Helgi Ólafsson reyndist KA-mönnum afar erfiður.vísir/elín björg Af hverju vann Fram? Fram spilaði frábæra vörn, fékk úrvals markvörslu frá Lárusi og spilaði nógu góða sókn til að vinna nokkuð öruggan sigur. Liðsheildin hjá Fram var sterk en tíu leikmenn liðsins komust á blað í leiknum. Hverjir stóðu upp úr? Sem fyrr sagði var Lárus magnaður í marki Fram, sérstaklega undir lok leiksins þegar KA gerði sig líklega til að minnka muninn. Þorgrímur Smári var langbesti sóknarmaður Fram og Stefán Darri Þórsson var sterkur á báðum endum vallarins. Satchwell varði vel í marki KA og Patrekur Stefánsson átti góða spretti í sókninni. Hvað gekk illa? KA-menn komust aldrei almennilega í gang í leiknum og virtust alltaf fastir í öðrum gír. Sóknarleikurinn var sérstaklega dapur enda skoraði liðið aðeins 22 mörk. Vilhelm Poulsen, sem hefur spilað vel í vetur, náði sér ekki á strik hjá Fram og fátt gekk upp hjá þeim færeyska. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga leik á föstudaginn. Fram fer í Mosfellsbæinn og mætir þar Aftureldingu. Á meðan fær KA Íslandsmeistara Selfoss í heimsókn. Sebastian: Ógeðslega ánægður með að verða fyrstir til að stöðva áhlaup KA Sebastian Alexandersson var virkilega ánægður að með hvernig hans menn spiluðu vörnina gegn KA.vísir/hulda margrét Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, sagði að sterk vörn hefði lagt grunninn að sigrinum á KA í dag. „Fyrir leik sagði ég að ef allt færi eftir bókinni yrði lítið skorað. Þeir eru með frábæra vörn og frábæran markvörð og eru fljótir fram. Mér fannst við leysa varnarleikinn frábærlega, sérstaklega í ljósi þess að Ægir [Hrafn Jónsson] er meiddur og Þorvaldur [Tryggvason] veikur,“ sagði Sebastian. „En aðrir stigu upp og ég er mest ánægður hvernig við leystum sjö á sex í vörninni eftir að hafa kolfallið á því prófi gegn Gróttu.“ Lárus Helgi Ólafsson var magnaður í marki Fram og varði nítján skot, eða tæplega helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Sebastian var að vonum ánægður með frammistöðu Lárusar. „Ég er ógeðslega ánægður með að verða fyrstir til að stöðva þetta áhlaup KA. Lalli gaf okkur nokkur atriði á mikilvægum augnablikum þegar þeir hefðu getað náð áhlaupi sem þeir hafa verið svo frægir fyrir í vetur,“ sagði Sebastian. „Lalli er búinn að vera pínu sár út í það hvað hann var slappur gegn Gróttu og sagðist skulda tvö stig og borgaði þau svo sannarlega í dag. En eigum við nokkuð að segja honum frá því? Eigum við ekki að leyfa honum að halda að hann sé enn í skuld?“ sagði Sebastian léttur. Þjálfarinn var nokkuð sáttur með sóknarleik Frammara í dag. „Vörnin þeirra er frábær. Vilhelm Poulsen náði sér engan veginn á strik í dag. Í ljósi þess er þetta ótrúlega gott. Þetta var ofboðslega mikil þolinmæðisvinna. Það er erfitt að finna glufur á vörninni þeirra sem er góð. Þeir láta andstæðinginn taka skot sem henta markverðinum og þess vegna er erfitt að freistast ekki til að taka fyrsta sénsinn. En við náðum því og ég er mjög ánægður með það,“ sagði Sebastian. „Mest af öllu er ég ánægður með að vera kominn með innbyrðis á þá. Þess vegna tók ég leikhlé undir lokin. Það skiptir máli að menn slaki ekki á. Maður veit aldrei. Af fenginni reynslu á ferlinum geta svona atriði skipt máli. En til öryggis vildi ég vera viss um að við hefðum innbyrðis á þá.“ Jónatan: Lítill tími til að vera svekktur og lítill tími til að fagna Jónatan Magnússon vildi sjá betri frammistöðu hjá KA-mönnum í Safamýrinni.vísir/hulda margrét Jónatan Magnússon, þjálfari KA, sagði að sínir menn hefðu ekki spilað nógu vel gegn Fram í dag. „Í hálfleik ræddum við um að það vantaði einhvern neista. Svo byrjuðum seinni hálfleikinn illa og gerðum okkur þetta erfitt fyrir,“ sagði Jónatan en KA-menn lentu fimm mörkum undir í upphafi seinni hálfleik. „Við sýndum karakter með því að gera þetta næstum því að leik undir lokin en heilt yfir gerðum við ekki það sem við ætluðum að gera. Við vissum að við þyrftum að spila mjög vel til að vinna Fram.“ KA fékk tækifæri til að þjarma að Fram undir lokin en Lárus Helgi Ólafsson reyndist gestunum erfiður og varði oft frá þeim úr góðum færum. „Hann er frábær markvörður. Við fengum alveg tækifæri til að koma okkur inn í leikinn. En heilt yfir vorum við ekki nógu góðir. Fram var betri. Við reyndum en Lalli gerði okkur erfitt fyrir og stundum er það þannig. Það er fúlt að tapa,“ sagði Jónatan. Þetta var fyrsta tap KA í febrúar en liðið hefur verið á frábærri siglingu að undanförnu. KA fær tækifæri til að komast aftur á sigurbraut þegar Selfoss kemur í heimsókn á föstudaginn. „Það er stutt á milli. Það er lítill tími til að vera svekktur og lítill tími til að fagna. Við þurfum betri frammistöðu og vonandi spilum við betur í næsta leik,“ sagði Jónatan að lokum. Olís-deild karla Fram KA
Fram varð fyrsta liðið í febrúar til að vinna KA þegar liðin áttust við í Safamýrinni í dag. Lokatölur 26-22, Fram í vil. Með sigrinum jafnaði Fram Stjörnuna að stigum í 8. sæti deildarinnar. KA er enn í því þriðja en liðið hefur verið á svakalegri siglingu að undanförnu. Lárus Helgi Ólafsson var besti maður vallarins en hann varði nítján skot í marki Fram, eða 46 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Bróðir hans, Þorgrímur Smári, var markahæstur í liði Fram með átta mörk. Áki Egilsnes skoraði sex mörk fyrir KA og Nicholas Satchwell varði fimmtán skot í marki gestanna (37 prósent). KA byrjaði leikinn betur og skoraði fyrstu tvö mörkin. Fram skoraði ekki sitt fyrsta mark fyrr en eftir átta mínútur en eftir þessa byrjunarörðugleika gekk sóknarleikur heimamanna mjög vel það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, og byrjaði seinni hálfleikinn svo miklu betur. Heimamenn skoruðu fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og komust fimm mörkum yfir, 17-12. Jónatan Magnússon, þjálfari KA, tók þá leikhlé sem svínvirkaði. KA skoraði fjögur mörk í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 17-16. Þá kom Þorgrímur Smári Ólafsson aftur inn á og hjó á hnútinn í Fram-sókninni. Hann skoraði, gaf stoðsendingar og fiskaði víti. Fram sleit sig aðeins frá KA og komst mest fimm mörkum yfir, 23-18. Gestirnir fengu tækifæri til að minnka muninn á lokakaflanum en Lárus Helgi varði hvað eftir annað frá þeim úr góðum færum. Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 26-22, og Fram stöðvaði því sigurgöngu KA. Lárus Helgi Ólafsson reyndist KA-mönnum afar erfiður.vísir/elín björg Af hverju vann Fram? Fram spilaði frábæra vörn, fékk úrvals markvörslu frá Lárusi og spilaði nógu góða sókn til að vinna nokkuð öruggan sigur. Liðsheildin hjá Fram var sterk en tíu leikmenn liðsins komust á blað í leiknum. Hverjir stóðu upp úr? Sem fyrr sagði var Lárus magnaður í marki Fram, sérstaklega undir lok leiksins þegar KA gerði sig líklega til að minnka muninn. Þorgrímur Smári var langbesti sóknarmaður Fram og Stefán Darri Þórsson var sterkur á báðum endum vallarins. Satchwell varði vel í marki KA og Patrekur Stefánsson átti góða spretti í sókninni. Hvað gekk illa? KA-menn komust aldrei almennilega í gang í leiknum og virtust alltaf fastir í öðrum gír. Sóknarleikurinn var sérstaklega dapur enda skoraði liðið aðeins 22 mörk. Vilhelm Poulsen, sem hefur spilað vel í vetur, náði sér ekki á strik hjá Fram og fátt gekk upp hjá þeim færeyska. Hvað gerist næst? Bæði lið eiga leik á föstudaginn. Fram fer í Mosfellsbæinn og mætir þar Aftureldingu. Á meðan fær KA Íslandsmeistara Selfoss í heimsókn. Sebastian: Ógeðslega ánægður með að verða fyrstir til að stöðva áhlaup KA Sebastian Alexandersson var virkilega ánægður að með hvernig hans menn spiluðu vörnina gegn KA.vísir/hulda margrét Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, sagði að sterk vörn hefði lagt grunninn að sigrinum á KA í dag. „Fyrir leik sagði ég að ef allt færi eftir bókinni yrði lítið skorað. Þeir eru með frábæra vörn og frábæran markvörð og eru fljótir fram. Mér fannst við leysa varnarleikinn frábærlega, sérstaklega í ljósi þess að Ægir [Hrafn Jónsson] er meiddur og Þorvaldur [Tryggvason] veikur,“ sagði Sebastian. „En aðrir stigu upp og ég er mest ánægður hvernig við leystum sjö á sex í vörninni eftir að hafa kolfallið á því prófi gegn Gróttu.“ Lárus Helgi Ólafsson var magnaður í marki Fram og varði nítján skot, eða tæplega helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Sebastian var að vonum ánægður með frammistöðu Lárusar. „Ég er ógeðslega ánægður með að verða fyrstir til að stöðva þetta áhlaup KA. Lalli gaf okkur nokkur atriði á mikilvægum augnablikum þegar þeir hefðu getað náð áhlaupi sem þeir hafa verið svo frægir fyrir í vetur,“ sagði Sebastian. „Lalli er búinn að vera pínu sár út í það hvað hann var slappur gegn Gróttu og sagðist skulda tvö stig og borgaði þau svo sannarlega í dag. En eigum við nokkuð að segja honum frá því? Eigum við ekki að leyfa honum að halda að hann sé enn í skuld?“ sagði Sebastian léttur. Þjálfarinn var nokkuð sáttur með sóknarleik Frammara í dag. „Vörnin þeirra er frábær. Vilhelm Poulsen náði sér engan veginn á strik í dag. Í ljósi þess er þetta ótrúlega gott. Þetta var ofboðslega mikil þolinmæðisvinna. Það er erfitt að finna glufur á vörninni þeirra sem er góð. Þeir láta andstæðinginn taka skot sem henta markverðinum og þess vegna er erfitt að freistast ekki til að taka fyrsta sénsinn. En við náðum því og ég er mjög ánægður með það,“ sagði Sebastian. „Mest af öllu er ég ánægður með að vera kominn með innbyrðis á þá. Þess vegna tók ég leikhlé undir lokin. Það skiptir máli að menn slaki ekki á. Maður veit aldrei. Af fenginni reynslu á ferlinum geta svona atriði skipt máli. En til öryggis vildi ég vera viss um að við hefðum innbyrðis á þá.“ Jónatan: Lítill tími til að vera svekktur og lítill tími til að fagna Jónatan Magnússon vildi sjá betri frammistöðu hjá KA-mönnum í Safamýrinni.vísir/hulda margrét Jónatan Magnússon, þjálfari KA, sagði að sínir menn hefðu ekki spilað nógu vel gegn Fram í dag. „Í hálfleik ræddum við um að það vantaði einhvern neista. Svo byrjuðum seinni hálfleikinn illa og gerðum okkur þetta erfitt fyrir,“ sagði Jónatan en KA-menn lentu fimm mörkum undir í upphafi seinni hálfleik. „Við sýndum karakter með því að gera þetta næstum því að leik undir lokin en heilt yfir gerðum við ekki það sem við ætluðum að gera. Við vissum að við þyrftum að spila mjög vel til að vinna Fram.“ KA fékk tækifæri til að þjarma að Fram undir lokin en Lárus Helgi Ólafsson reyndist gestunum erfiður og varði oft frá þeim úr góðum færum. „Hann er frábær markvörður. Við fengum alveg tækifæri til að koma okkur inn í leikinn. En heilt yfir vorum við ekki nógu góðir. Fram var betri. Við reyndum en Lalli gerði okkur erfitt fyrir og stundum er það þannig. Það er fúlt að tapa,“ sagði Jónatan. Þetta var fyrsta tap KA í febrúar en liðið hefur verið á frábærri siglingu að undanförnu. KA fær tækifæri til að komast aftur á sigurbraut þegar Selfoss kemur í heimsókn á föstudaginn. „Það er stutt á milli. Það er lítill tími til að vera svekktur og lítill tími til að fagna. Við þurfum betri frammistöðu og vonandi spilum við betur í næsta leik,“ sagði Jónatan að lokum.
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti