„Já, þetta er einmitt ein af þeim sviðsmyndum, hvar sem gæti gosið norðanmegin á Reykjanesinu þá er alltaf hætta á því að hraunstraumur myndi renna og loka Reykjanesbrautinni. Það hefur alveg verið inni í okkar sviðsmyndum,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.
Hann segir að fyrir nokkrum árum hafi verið gerðar tímamælingar hvað varða rýmingar á svæðinu. Þá sé Suðurstrandavegur einnig leið af Reykjanesskaga.
„Þannig að það er ólíklegt að þær lokist báðar. Svo þarf að hafa í huga að það tekur svolítinn tíma fyrir hraun að renna þessa vegalengd. Þannig að þetta gerist ekki bara á einhverjum örfáum klukkutímum, en þetta er hluti af því sem við þurfum að vera vakandi fyrir,“ segir Víðir.
Hann bætir við að hermilíkön líkt og það sem Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands gáfu út í gær séu afar hjálpleg. Með hjálp þeirra sé hægt að sjá hlutina í réttu ljósi og setja þá í samhengi.
Jarðskjálftar aðalmálið en fylgjast þurfi með kviku
Víðir segir þá að rýmingaráætlanir snúi að byggðum sem kynnu að lokast af. Hann minnir þó aftur á Suðurstrandaveginn og að fleiri en ein leið séu færar um Reykjanesskagann.
„Og þetta er ekki atburður sem gerist á einhverjum mínútum. Við höfum alveg nægan tíma til að tryggja öryggi þeirra sem fara um Reykjanesbrautina.“
Hættustig Almannavarna er nú í gildi vegna jarðskjálfta sem hafa hrist Reykjanesskagann undanfarna daga.
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir í morgun þá hefur ekkert breyst varðandi mat vísindamanna að þetta séu fyrst og fremst flekaskilajarðskjálftar en auðvitað erum við öll að horfa á þann möguleika hvort kvika fari af stað í svona atburðarás. Það þarf að fylgjast vel með því.“
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga á síðustu dögum. Upp úr klukkan átta í morgun varð til að mynda skjálfti, 5,2 að stærð, skammt frá Fagradalsfjalli. Á miðvikudag var þá skjálfti upp á 5,7 að stærð á svipuðum slóðum. Margir minni skjálftar, sem þó hafa fundist vel á Reykjanesskaga og sumir lengra frá, hafa orðið á svæðinu síðan þá.