Erlent

Tilkynnti sex ára son sinn týndan en reyndist hafa ekið yfir hann

Samúel Karl Ólason skrifar
Brittany Gosner, James Hamilton og James Hutchinson.
Brittany Gosner, James Hamilton og James Hutchinson. Lögreglan í Middletown Ohio

Brittany Gosner og kærasti hennar gengu inn í lögreglustöð í Middletown í Ohio í Bandaríkjunum um helgina og tilkynntu að sex ára gamall sonur hennar, James Hutchinson, væri týndur. Einungis degi seinna kom í ljós að þau voru að ljúga.

Gosney hafði ekið yfir son sinn í almenningsgarði nokkrum dögum áður, þegar hún reyndi að yfirgefa hann þar, og köstuðu hún og kærastinn, James Hamilton, líki drengsins í Ohio-ána.

Bæði hafa verið handtekin og ákærð og hefur Gosner játað að hafa banað syni sínum, samkvæmt frétt Washington Post.

Lögregluþjóna grunaði strax á sunnudaginn að Gosner og Hamilton væru ekki að segja sannleikann. Þau sögðu að barnið hefði týnst kvöldið áður og þótti ótrúverðugt að þau hefðu ekki leitað strax til lögreglunnar.

Héraðsmiðillinn WKRC segir að í gögnum lögreglu komi fram að Hamilton hafi þrýst á Gosner að hún losaði sig við þrjú börn sín.

Þess vegna hafi hún farið með börnin þrjú í bíl sínum í afskekktan almenningsgarð. Þar fékk hún börnin út úr bílnum og ætlaði að skilja þau eftir. Þegar hún keyrði á brott, reyndi sonur hennar að komast aftur í bílinn og keyrði hún yfir hann.

Hún sneri aftur hálftíma síðar og kom að James dánum. Þá mun hún hafa keyrt hann aftur heim til sín og degi seinna fóru hún og Hamilton að Ohioánnig og hentu líki James útí.

Lík drengsins hefur ekki fundist enn.

Gosney átti fjögur börn og hafði eitt verið tekið af henni. Hin tvö eru nú einnig hjá barnaverndaryfirvöldum.

Lewis Hutchinson, faðir James, segist ekki skilja af hverju Gosney lét hann ekki fá son þeirra, í stað þess að myrða hann.

„Ég skil ekki hvað fær einhvern til að verða svona skrímsli,“ sagði hann við WKRC.

Héraðsmiðilinn segir íbúa Middletown, sem eru um 45 þúsund talsins, vera slegna yfir málinu. Meðal annars skilji íbúar ekki hvernig eitthvað svona geti gerst og foreldrar eiga í vandræðum með að útskýra málið fyrir börnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×