Handbolti

Arnar: Ég nenni ekkert að vera í þessu við­tali

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnar Daði var súr og svekktur í kvöld.
Arnar Daði var súr og svekktur í kvöld. vísir/hulda margrét

Stjarnan vann ævintýralegan sigur á Gróttu í kvöld 28 - 27. Leikurinn var í járnum allan leikinn og skoraði Sverrir Eyjólfsson sigur mark Stjörnunnar þegar tæplega þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

„Ég nenni þessu viðtali lítið sem ekkert þessa stundina, mér líður ömurlega þetta er mjög leiðinlegt. Sóknin okkar í restina fer með leikinn, eftir að við komumst yfir 27-25 skorum við ekki mark sem fer með leikinn,” sagði Arnar Daði þjálfari Gróttu hundsvekktur eftir leik.

„Strákarnir voru að gera það sem við lögðum upp með undir lok leiks. Við áttum góðan kafla á undan þar sem við vorum lentir þremur mörkum undir sem við breytum í fimm marka kafla frá okkur sem kemur okkur tveimur mörkum yfir. Ég hefði mögulega átt að taka leikhlé fyrr en ég veðjaði á að fá betri sókn alveg í lokinn,” sagði Arnar Daði og bætti við að leikhlés ákvörðunin hans kom í bakið á honum.

Bæði lið voru lengi að koma sér í takt við leikinn. Eftir að rúmlega tíu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan aðeins 2-2 og lítið um góðar sóknir.

„Byrjun leiksins var mjög léleg, við köstum boltanum oft frá okkur, þegar við skutum á sjálft markið þá skoruðum við. Við erum bara í vegferð sem gerir okkur mjög erfitt fyrir að æfa nýja hluti og koma inn áherslum þar sem það er stutt á milli leikja.”

Sverrir Eyjólfsson línumaður Stjörnunnar skoraði sigurmark leiksins á mjög dramatískan hátt þegar tæplega þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

„Mér finnst þetta mjög líkt mark og það sem Haukarnir gerðu á móti okkur í fyrstu umferð mótsins, línan er laus vegna þess að þristurinn fer út í Tandra sem er góður skotmaður, Tandri hefði eflaust skorað sjálfur hefði hann fengið opið skot,” sagði Arnar svekktur og bætti við að þetta verður ekki leiðinlegra en þetta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×