Fótbolti

Sir Alex Ferguson opnar sig um heilablæðingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sir Alex Ferguson hefur tjáð sig um heilablæðingu sem hann varð fyrir í maí 2018.
Sir Alex Ferguson hefur tjáð sig um heilablæðingu sem hann varð fyrir í maí 2018. Richard Sellers/EMPICS/PA

Í nýlegri mynd sem ber nafnið Sir Alex Ferguson: Never give in ræðir þessi fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United um það þegar hann lá á spítala eftir að blæddi inn á heila hjá honum í maí 2018.

„Ég velti fyrir mér hversu marga sólskinsdaga ég ætti eftir að sjá,“ sagði Ferguson. Taugaskurðlæknirinn Joshi George sagði Skotanum að það væru um 80% líkur á því að hann myndi ekki lifa þetta af.

„Það voru fimm heilablæðingar þennan daginn, þrír dóu og tveir lifðu af.  Ég veit að ég er heppinn,“ sagði Ferguson en eftir bakslag missti hann röddina. „Ég reyndi að þvinga eitthvað út. Einn læknirinn kom inn og  ég var grátandi því mér fanst ég svo hjálparlaus.“

Það sem Ferguson óttaðist mest var að missa minnið. „Tveir læknar komu inn og sögðu mér að skrifa nöfnin á fjölskyldumeðlimum, vinum, fótboltaliðum og leikmönnum og ég skrifaði og skrifaði.“

„Ég skoðaði það sem ég skrifaði nokkru seinna og margt af því var óskiljanlegt. Þú vilt ekki deyja. Það er þar sem ég var,“ sagði Ferguson.

Sir Alex Ferguson vann 38 titla með Manchester United á rúmum 26 árum, þar á meðal ensku úrvalsdeildina 13 sinnum og Meistaradeildina tvisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×