Cuomo hefur þvertekið fyrir að segja af sér þrátt fyrir að leiðtogar Demókrataflokks hans í New York hafi hvatt hann til þess, beint og óbeint. Eina leiðin til að hann fari frá verði ef ríkisþingið kæri hann fyrir embættisbrot og fjarlægi hann. Hann neitar ásökunum kvennanna en hefur beðist afsökunar á sumum þeirra atvika sem þær hafa lýst.
Rannsókn þingsins fer fram samhliða rannsókn dómsmálaráðherra New York-ríkis á meintum brotum Cuomo. Carl Heastie, forseti fulltrúadeildar ríkisþingsins, segir að dómsmálanefndin geti kallað til vitni, gefið út stefnur um gögn og lagt mat á sönnunargögn, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.
„Frásagnir af ásökunum á hendur ríkisstjóranum eru alvarlega,“ segir Heastie.
Ríkisstjórinn liggur einnig undir harðri gagnrýni fyrir að reyna að fegra tölur um dauðsföll á hjúkrunarheimilum í kórónuveirufaraldrinum. Cuomo var framan af hampað fyrir viðbrögð sín við faraldrinum en svo virðist sem að nánustu ráðgjafar hans hafi reynt að koma í veg fyrir að raunverulegur fjöldi látinna spyrðist út.