Þetta sagði Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymisins, í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir alltaf áhyggjuefni þegar smit greinist utan sóttkvíar, þá sérstaklega þegar fáir séu að greinast með veiruna.
„Við erum náttúrulega vön því þegar bylgjurnar voru sem hæstar að þá voru mörg tilfelli utan sóttkvíar, en þegar svona fá eru fer allt í gang. Það er kortlagning á ferðum og mat á því hverjir teljist útsettir og hvort einhverjir sérstakir staðir eru þar sem þarf að gefa út viðvaranir.“
Þegar bylgjur faraldursins hafa staðið sem hæst hafa nokkrir tugir fólks starfað að smitrakningu, en að sögn Jóhanns hafa um það bil átta unnið að smitrakningu undanfarnar vikur.
„Það eru svona fjórir að vinna á hverjum tíma og við höfum ekki farið niður úr því til að tryggja þetta viðbragð. Við erum líka að sinna allskonar eftirliti í kerfinu varðandi þá sem eru í sóttkví eftir komuna til landsins.“

Færri útsettir þegar miklar takmarkanir eru í gildi
Hann segir tímann leiða í ljós hvort takist að rekja uppruna smitsins en talsvert hafi verið um sýnatökur í kjölfarið. Almennt sé miðað við að þeir sem hafi verið í samskiptum við smitaðan einstakling 48 tímum fyrir einkenni geti verið útsettir.
„Við erum að beita [sýnatökum] varðandi sérstaka hópa sem eru kannski fyrir utan þetta sóttkvíartímabil. Þá erum við í rauninni að skima fyrir því hvort einhver veira sé í því nærumhverfi.“
Hann segir verklagið í sífelldri þróun og mikil lærdómur hafi verið dreginn af síðastliðnu ári, en það séu miklar sveiflur eftir tímabilum hversu umfangsmikil smitrakning er. Þegar aðgerðir eru minni innanlands eru fleiri möguleikar fyrir veiruna að dreifa sér.
„Þegar það eru takmarkanir í gangi eru færri sem eru útsettir.“