Fótbolti

Koma Sveindísar Jane sögð vera þriðju bestu félagaskiptin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Hún er aðeins nítján ára gömul en heldur upp á tvítugsafmælið sitt í suamr.
Sveindís Jane Jónsdóttir er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Hún er aðeins nítján ára gömul en heldur upp á tvítugsafmælið sitt í suamr. Vísir/Vilhelm

Tvær íslenskar landsliðskonur eru á nýjum lista yfir bestu félagaskiptin fyrir komandi tímabil í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þær Sveindís Jane Jónsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir eru báðar að koma til Svíþjóðar úr Pepsi Max deildinni.

Sveindís Jane og Hallbera eru í hópi fjölmargra íslenska knattspyrnukvenna sem hafa farið í víking eftir síðasta sumar. Það er mikið búist við af þeim tveimur í Svíþjóð.

Koma Hallberu til AIK frá Val þykja vera fimmtándu bestu félagsskiptin. „Hún er mögulega með besta vinstri fót deildarinnar. Hún getur spilað mikilvægt hlutverk í föstum leikatriðum. Þú veist hvað þú færð með Hallberu í vinstri bakverði," segir í rökstuðningi Damallsvenskan Nyheter fyrir því að setja Hallberu í fimmtánda sætið.

Sveindís Jane Jónsdóttir, sem varð Íslandsmeistari með Breiðabliki á síðustu leiktíð, er hins vegar mun ofar eða í þriðja sætinu. Sveindís Jane samdi við þýska stórliðið Wolfsburg en Þjóðverjarnir lánuðu hana strax til Kristianstad.

„Gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður sem er nú kominn í hóp með fljótustu leikmönnum deildarinnar. Hún kemur á láni og verður verður mikilvæg fyrir félagið sem náði frábærum árangri á síðustu leiktíð. Íslendingurinn er fljót, tekur löng innköst og hefur sjálfstraust til að klára færin," segir í rökstuðningi Damallsvenskan Nyheter fyrir vali hennar.

Sveindís Jane var með 14 mörk og 12 stoðsendingar á fyrsta og eina tímabili sínu með Breiðabliki á síðasta ári og fékk í framhaldinu sín fyrstu tækifæri með A-landsliðinu þar sem hún skoraði tvö mörk í fyrsta leik.

Bestu tvö félagsskiptin þykja koma Johanna Rytting Kaneryd til BK Häcken frá Rosengård og númer tvö er koma Olivia Schough til Rosengård frá Djurgården.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×