Eins og Viðar sjálfur og íþróttastjóri Vålerenga hafa sagt í dag virðist lítil innistæða fyrir þeim fullyrðingum Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara, að Vålerenga hafi bannað Viðari að fara í yfirstandandi landsliðsverkefni.
Arnar sagði meðal annars í viðtali við RÚV: „Það var aldrei í boði að velja Viðar Örn. Vålerenga leyfði honum ekki að fara í þetta verkefni.“
RÚV og Fótbolti.net hafa jafnframt vitnað í tölvupóst frá íþróttastjóra Vålerenga, frá 1. mars, þess efnis að Viðar yrði að óbreyttu ekki í boði fyrir íslenska landsliðið þar sem hann þyrfti að fara í sjö daga sóttkví við komuna heim til Noregs.
Systir Viðars birti bréfið á samfélagsmiðlum. Þar kemur skýrt fram að Vålerenga muni endurskoða afstöðu sína ef eitthvað breytist.
Hlutirnir breyttust svo sannarlega 11. mars, þegar tilkynnt var að upphafi tímabilsins í Noregi hefði verið frestað um mánuð eða fram í byrjun maí. Þegar þetta var ljóst voru enn átta dagar í það að Arnar tilkynnti valið á sínum fyrsta landsliðshópi.
Fyrst að fjölmiðlar eru búnir að sjá samskiptin, hlýtur að vera í lagi að pósta þeim hér. Lesi hver í þau eins og hann vill. Þeir völdu VÖK aldrei í landsliðið. Þarf ekki að segja meira, punktur. pic.twitter.com/FP5Ye4lq3W
— Hólmfríður Erna Kjartansdóttir (@holmfridurerna) March 29, 2021
Vålerenga leyfði til að mynda kanadíska landsliðsmanninum Samuel Adekugbe að fara til Flórída til að spila með landsliði Kanada í þessum landsleikjaglugga.
Ekkert virðist því hafa getað komið í veg fyrir að Viðar yrði valinn í íslenska landsliðshópinn, annað en skortur á vilja hins nýja landsliðsþjálfara til þess að velja hann.