Síðasta verkefni skipverjanna á Beiti á loðnuvertíðinni var að skola úr nótinni í Norðfjarðarflóa áður en þeir sigldu að sérstakri bryggju Hampiðjunnar þar sem nótin var tekin til geymslu, en þetta mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.

„Þetta er nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað,“ segir Hugi Árbjörnsson netagerðarmeistari og staðhæfir að það sé það langflottasta. Hér vinna sjö til níu starfsmenn, einkum að viðgerðum á veiðarfærum.
Þegar við sjáum risastóra loðnunót Beitis dregna inn í húsið spyrjum við hvað svona nót kostar.
„80 til 100 milljónir,“ svarar Hugi.

-Þið eruð náttúrlega mikilvægustu menn bransans?
„Jú, jú.“
-Það væri engin loðna veidd án ykkar?
„Það myndi enginn veiða neitt ef við gerðum ekki fyrir þá veiðarfærin,“ segir netagerðarmeistarinn.

En hvað liggja mikil verðmæti í veiðarfærum eins skips eins og Beitis?
„Þeir eru með þrjár nætur, þrjú troll, einhverja tíu poka. Þetta eru einhverjar 400-500 milljónir.“
-Bara í veiðarfærum fyrir eitt skip?
„Eitthvað svoleiðis,“ svarar Hugi.
Netaverkstæðin í Fjarðabyggð fundu sannarlega fyrir loðnubresti.

„Við auðvitað sjáum hér, bæði á Norðfirði og Eskifirði, stórar og miklar netagerðir, eða veiðarfæragerðir, þar sem er mikil þjónusta við flotann. Þetta hafði mikil áhrif fyrir þá í fyrra þegar loðnan er ekki og loðnunæturnar ekki teknar,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Netagerðarmeistarar fagna því loðnu.
„Hún gerir það að verkum að ég hef verkefni allt sumarið, allt árið, í loðnunótum, sem er rosalega gott,“ segir Hugi Árbjörnsson.
Einnig er fjallað um netaverkstæðið í þættinum Um land allt, um loðnuvertíðina, sem er endursýndur á Stöð 2 í dag, Páskadag, klukkan 13.50.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: