Bilun varð á rafmagni kjarnorkuversins og var bilunin fyrst talin slys. Nú hefur Kjarnorkustofnun Írans hins vegar gefið það út að líklega hafi ekki verið um slys að ræða heldur tölvuárás.
Ali Akbar Salehi, yfirmaður Kjarnorkustofnunarinnar, sagði í dag að um kjarnorkuhryðjuverk hafi verið að ræða. Þá hafa fréttamiðlar í Ísrael ýjað að því að árásin hafi verið gerð af ísraelskum tölvuþrjótum.
Þetta er ekki fyrsta skiptið sem kjarnorkuverið verður fyrir slíkri árás, en eldur kom upp í kjarnorkuverinu í fyrra og hafa yfirvöld haldið því fram að tölvuárásum sé um eldinn að kenna.
Skilvindurnar sem teknar voru í notkun í gær eru, eins og áður segir, notaðar til þess að auðga úran. Auðgaða úranið er svo hægt að nota sem eldsneyti eða til þess að búa til kjarnorkuvopn. Þetta brýtur gegn kjarnorkusamningnum sem Íran gerði við vestrænar þjóðir árið 2015 og Bandaríkin sögðu sig úr einhliða árið 2018.
Nú vinna Bandaríkin og Íran að því að blása lífi í samninginn og standa viðræður milli landanna yfir í Vín, með milligöngu Evrópusambandsins.