BBC greinir frá en þetta þýðir að nú hafa alls hátt í sextán milljónir smitast af veirunni á Indlandi sem er næst mesti fjöldi í heimi á eftir Bandaríkjunum þar sem hátt í 32 milljónir hafa greinst með veiruna.
Indland glímir nú við kröftuga aðra bylgju faraldursins og hefur skortur á súrefni til súrefnisgjafar vakið frekari ótta um yfirþyrmandi álag á heilbrigðiskerfið. Ástandið hefur leitt til þess að hæstiréttur í borginni Delí hefur opinberlega gagnrýnt yfirvöld fyrir að taka ekki til nauðsynlegra aðgerða vegna súrefnisskorts í borginni.
„Þetta er fáránlegt. Við viljum vita hvað miðstjórnin er að gera varðandi súrefnisbirgðir á Indlandi,“ er haft eftir úr yfirlýsingu dómara við réttinn í tengslum við áskorun frá eigendum sex einkarekinna sjúkrahúsa sem kom til kasta dómstóla.
Rétturinn fyrirskipaði yfirvöldum að tryggja örugga flutninga súrefnisbirgða frá framleiðslustöðum og á sjúkrahús um landið. Nokkrir hafa látist úr sjúkdómnum á meðan það beið þess að fá súrefni en ekki liggur fyrir hversu margir.