Kórónuveirufaraldurinn hefur náð hæstu hæðum í Indlandi og ástandið er mjög alvarlegt. Yfirvöld í Canberra hafa bannað öll flug frá Indlandi og gildir bannið til 15. maí næstkomandi. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, segir bannið ekki rasískt. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
„Ríkisstjórnin var borin sömu ásökunum fyrir rúmu ári síðan þegar við lokuðum fyrir ferðalög frá meginlandi Kína,“ sagði hann í viðtali á útvarpsstöðinni 2GB.
„Pólitík eða hugmyndafræði ræður ekki för í heimsfaraldri… þetta hefur ekkert með pólitík að gera, þetta er veira,“ sagði hann í viðtalinu.
Þetta er fyrsta skiptið sem Ástralar hafa sætt refsingu fyrir að snúa aftur til landsins. Talið er að um níu þúsund Ástralar séu staddir á Indlandi þessa stundina. Sex hundruð þeirra eru taldir í áhættuhópi vegna kórónuveirunnar.
Ríkisstjórnin segir aðgerðirnar, sem voru kynntar á laugardaginn, vera byggðar á tilmælum sóttvarnayfirvalda og miðaðar að því að vernda samfélagið. Kórónuveirufaraldurinn hefur eins og segir verið á mikilli uppleið á Indlandi og hafa meira en 300 þúsund greinst á hverjum degi síðustu tíu daga.
Yfirvöld í Ástralíu segja að flest smita sem greinst hafi í Ástralíu undanfarnar tvær vikur megi rekja til fólks sem hafi snúið heim til Ástralíu frá Indlandi. Marise Payne, utanríkisráðherra Ástralíu, segir að 57 prósent smita sem greinst hafi á landamærum séu meðal fólks sem ferðast hafi frá Indlandi. Það sé 10 prósent hækkun frá því í mars.