Luis Manuel Otero Alcántara leiðir San Isidro-hreyfinguna (SIM), hóp listamanna, blaðamanna og menntamanna sem berst fyrir tjáningarfrelsi og lýðræði á Kúbu. Kúbönsk stjórnvöld saka SIM um að vera handbendi Bandaríkjastjórnar sem grafi undan ríkisvaldinu en því hafna þau.
Kommúnistastjórnin hneppti Otero Alcántara í stofufangelsi í reynd eftir að húsleit var gerð á heimili hans í síðasta mánuði. Hann hóf þá hungurverkfall til að krefjast þess að yfirvöld skiluðu honum listaverkum, greiddu honum bætur, virtu tjáningarfrelsi hans og að lögregla hætti að áreita hann. Breska ríkisútvarpið BBC segir að lögregla hafi þá vaktað heimili hans og ekki leyft neinum að koma þangað eða fara.
Í gær var listamaðurinn svo fluttur á sjúkrahús, að sögn heilbrigðisyfirvalda í höfuðborginni Havana. Hann hafi ekki sýnt nein merki um vannæringu eða steinefnaskort en hann hafi engu að síður verið lagður inn á sjúkrahúsið. Hann sé við stöðuga heilsu.
Félagar í SIM segja aftur á móti að Otero Alcántara hafi verið fluttur á sjúkrahúsið með valdi fyrir dagrenningu í gær. Þeir krefjast þess að yfirvöld leggi fram skýrar sannanir um að hann sé við góða heilsu. Samtökin setja spurningarmerki við að hann sé sagður við góða heilsu þrátt fyrir að hafa neitað sér um vott og þurrt í sjö daga. Fullyrða þau að undanfarna daga hafi Otero Alcántara sýnt einkenni um ofþornun, þar á meðal skæðan kviðverk.
Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa krafist upplýsinga um hvar Otero Alcántara er niður kominn og að fjölskylda hans fái að heimsækja hann. Þá hafa bandarísk og evrópsk yfirvöld lýst áhyggjum af afdrifum hans.