Fótbolti

Biðst afsökunar á Panenka klúðrinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Spyrnan afleita.
Spyrnan afleita. vísir/Getty

Sergio Aguero reyndist skúrkurinn á Etihad leikvangnum í Manchester í dag þegar hann klúðraði vítaspyrnu á klaufalegan hátt.

Aguero hefði getað tvöfaldað forystu Man City gegn Chelsea í uppbótartíma fyrri hálfleiks, aðeins nokkrum sekúndum eftir að Raheem Sterling hafði komið Man City í forystu.

Í staðinn fóru heimamenn með eins marks forystu í leikhléið eftir að Aguero ákvað að vippa boltanum beint í hendurnar á Edouard Mendy. Forystu sem Chelsea tókst að brjóta á bak aftur og vinna leikinn 1-2.

„Ég vil biðja liðsfélaga mína, þjálfarateymið og stuðningsmenn afsökunar á að hafa klúðrað vítaspyrnunni. Þetta var slæm ákvörðun og ég tek fulla ábyrgð á henni,“ sagði Aguero á Twitter í kvöld.

Sigur hefði tryggt Man City Englandsmeistaratitilinn en Aguero, sem er einn besti leikmaður í sögu félagsins, mun yfirgefa Man City í sumar eftir tíu farsæl ár í Manchester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×