Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og segir að staðarmiðlar hafi sumir greint frá því að allt að hundrað lík hafi fundist við árbakkann. Ástand líkanna gefi einnig til kynna að þau hafi verið í vatninu í marga daga. Þau fundust stuttu frá skilum Bihar og Uttar Pradesh héraðanna.
„Það er líklegt að þessar líkamsleifar hafi komið úr Uttar Pradesh héraði,“ sagði Ashok Kumar talsmaður héraðsstjórnar á blaðamannafundi. Hann sagði að líkamsleifarnar yrðu annaðhvort grafnar eða brenndar.
Þá segir í tilkynningu að líkin hafi verið útþembd og að hluta brennd. Líklegt er talið að líkin hafi endað í ánni eftir að tilraun hafi verið gerð til að brenna líkin við árbakkann. Lík látinna eru alla jafnan brennd á Indlandi, en ekki grafin, og er því talið líklegt að tilraun hafi verið gerð til að brenna líkin í útför.
Önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir Indland og dauðsföll hafa aldrei verið fleiri en á síðustu vikum. Flestar útfararstofur landsins eru yfirfullar og hafa hvorki mannsskap né pláss til að halda í við að brenna líkin sem hrannast upp.
Meira en 22,6 milljón hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni á Indlandi og 246.116 hafa dáið af völdum veirunnar frá upphafi faraldursins svo vitað sé um. Sérfræðingar telja hins vegar að dauðsföllin séu talsvert fleiri.