Þeir Kjartan, Guðjón Baldvinsson og Óskar Örn Hauksson voru fyrstu kostir Rúnars Kristinssonar í framlínu KR fyrri hluta tímabilsins 2011, eða allt þar til Óskar meiddist um mitt sumar.
Kjartan og Guðjón eru nú komnir aftur í KR eftir mislanga fjarveru en Óskar hefur ekki farið neitt. Rúnar gæti því stillt upp sömu framlínu og þegar KR-ingar unnu bæði deild og bikar fyrir áratug. KR 2011 er síðasta íslenska liðið sem vann tvöfalt.
Kjartan var markahæsti leikmaður KR í Pepsi-deildinni 2011 með tólf mörk. Guðjón kom næstur með átta mörk. Óskar skoraði svo þrjú mörk í þeim ellefu leikjum sem hann spilaði áður en hann meiddist.
Fyrir utan Kjartan, Guðjón og Óskar er Aron Bjarki Jósepsson sá eini úr meistaraliðinu 2011 sem er í leikmannahópi KR í dag. Þá er Rúnar Kristinsson þjálfari KR eins og hann var fyrir áratug.
Óskar og Guðjón eru báðir komnir á blað á þessu tímabili. Óskar skoraði í 0-2 sigri KR á Breiðabliki í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar og Guðjón gerði mark KR-inga í 1-3 tapinu fyrir KA-mönnum í 2. umferðinni.
Kjartan gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir KR síðan 2014 þegar liðið fær Val í heimsókn í stórleik 4. umferðar á mánudaginn.
KR sækir Fylki heim í 3. umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:45.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.