Samkvæmt frétt Reuters voru árásirnar gerðar á hús í miðborg Gasaborg og hrundu nokkur hús. Þetta er líklegast mannskæðustu loftárásir Ísraelsmanna hingað til í átökunum.
Flestir þeirra sem dóu eru sagðir tilheyra sömu stórfjölskyldunni. Þeirra á meðal er einn yfirmanna al-Shifa sjúkrahússins á Gasa, samkvæmt Times of Israel.
Ísraelsher hefur enn ekki tjáð sig um árásirnar í morgun.
Minnst 181 Palestínumaður hefur nú fallið í loftárásum Ísraelsmanna á Gasa og þar af 52 börn. Um 1.200 manns eru sagðir hafa særst.
Alþjóðasamfélagið hefur kallað eftir vopnahléi í nýjustu átökum Ísraels og Palestínumanna en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, heitir því að loftárásir muni halda áfram svo lengi sem þeirra sé þörf.
Forsvarsmenn Hamas-samtakanna hafa sömuleiðis heitið því að halda eldflaugaárásum sínum áfram.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun halda fund um átökin síðar í dag. Erindrekar frá Egyptalandi hafa reynt að miðla milli fylkinga og koma á vopnahléi, eins og oft áður, en þeir segja markvissar árásir Ísraelsmanna á leiðtoga Hamas-samtakanna flækja friðarviðræður töluvert.