Erlent

Svört kona þóttist hvít og virði húss hennar tvöfaldaðist

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Indianapolis í Bandaríkjunum.
Frá Indianapolis í Bandaríkjunum. Getty

Svört kona í Indianapolis í Bandaríkjunum fannst verðmat sem tvö fyrirtæki gerðu fyrir sig í fyrra vera skringilega lág. Þá ákvað hún að fela litarhaft sitt, þykjast vera hvít á hörund og reyna aftur. Við það tvöfaldaðist verðmæti húss hennar og rúmlega það.

Carlette Duffy fékk tvö fyrirtæki til að meta virði húss hennar í fyrra. Í fyrra skiptið var verðmæti hússins metið á 125 þúsund dali, sem samsvarar um fimmtán milljónum króna miðað við gengið í dag. Í seinna verðmatinu var húsið metið á 110 þúsund dali.

Hún hafði keypt húsið fyrir hundrað þúsund dali um þremur árum fyrir fyrsta verðmatið í maí í fyrra. Hún sýndi starfsmönnum beggja fyrirtækjanna gögn um að á þeim tíma hefðu húsnæðisverð á svæðinu hækkað töluvert en það bar engan árangur.

Duffy sem var að vinna að því að endurfjármagna húsnæðislán sitt, prófaði þá að ræða við þriðja fyrirtækið. Hún gerði það bara í gegnum tölvupóst og tók ekki fram litarhaft sitt eða kyn í umsókninni. Þegar matsmaður fór heim til hennar hafði hún tekið niður allar myndir af sér og fjölskyldu sinni og fékk hvíta vinkonu sína til að taka á móti honum.

Þetta var í nóvember í fyrra og þá var hús hennar metið á 259 þúsund dali, eða tæpar 32 milljónir króna.

Þetta kemur fram í frétt NBC News frá því í gær en þar kemur fram að Duffy hefur, með aðkomu neytendasamtaka, höfðað mál á grundvelli mismununar.

Amy Nelson, framkvæmdastjóri neytendasamtakanna Fair Housing Center of Central Indiana, sagði í samtali við miðilinn að Duffy hefði fyrst orðið hæst ánægð með þriðja verðmatið. Hún hafi þó fljótt brotnað niður þegar hún áttaði sig fullkomlega á því hvernig í pottinn var búið.

NBC ræddi einnig við Andre Perry, sem skrifaði bók árið 2018 sem fjallar um það hvernig hús í hverfum Bandaríkjanna þar sem þeldökkir eru í meirihluta, eru verðmetin um fjórðungi lægra en sambærileg hús í öðrum hverfum.

Um kerfisbundna mismunun gegn svörtu fólki sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×