Erlent

Jarðskjálfti upp á 6,1 í Alaska

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Anchorage þar sem langflestir íbúar Alaska búa.
Frá Anchorage þar sem langflestir íbúar Alaska búa. Vísir/Getty

Íbúar í Anchorage í Alaska fundu vel fyrir stórum jarðskjálfta sem skók Talkeetna-fjöll í gærkvöldi. Hann er talinn hafa verið 6,1 að stærð en smærri eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið í morgun.

Ekki hefur verið greint frá mann- eða eignatjóni í jarðskjálftanum sem fannst sérstaklega vel í Anchorage, stærstu borg Alaska, og í kringum borgina Wasilla, að sögn AP-fréttastofunnar.

Jarðskjálftamiðstöð Alaska telur að skjálftinn hafi átt upptök sín á um 44 kílómetra dýpi um 96 kílómetra austur af Talkeetna-fjöllum sem eru um 160 kílómetrum norðaustur af Anchorage. Á mánudagsmorgun reið annar skjálfti upp á 4,6 yfir og svo nokkir minni skjálftar.

Jarðskjálftinn í gær var sá stærsti sem hefur mælst á þessum slóðum frá því að skjálfti upp á 7,1 reið yfir í nóvember árið 2018. Enginn lést en meiriháttar skemmdir urðu á innviðum, íbúðarhúsum, byggingum, vegum og brúm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×