Smituðum og sjúkrahúsinnlögnum hefur fækkað ört í Svíþjóð undanfarinn mánuð eftir fjölgun smita í vor. Hins vegar hafa komið upp smærri hópsýkingar deltaafbrigðisins sem fyrst greindist á Indlandi. Afbrigðið er talið allt að 60% meira smitandi en alfaafbrigðið sem var meðal annars ráðandi á Bretlandi, meðal annars vegna þess að bóluefni veita síðri vernd fyrir því en öðrum afbrigðum.
„Það eru nokkur óveðursský við sjóndeildarhringinn og ég hugsa þá fyrst og fremst um hópsýkingar deltaafbrigðisins. Það finnst í Evrópu og í hópsýkingum í Svíþjóð,“ sagði Johan Carlson, forstöðumaður Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar.
Um helmingur fullorðinna hefur nú fengið að minnsta kosti fyrri skammt af bóluefni gegn veirunni í Svíþjóð. Stofnunin varar þó við að þeir sem hafa aðeins fengið einn skammt séu síður varðir fyrir deltaafbrigðinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Þó að aðeins 71 tilfelli deltaafbrigðisins hafi greinst til þessa í Svíþjóð hafa yfirvöld lagt aukinn kraft í smitrakningu til þess að koma í veg fyrir að það nái frekari fótfestu. Á Bretlandi er deltaafbrigðið um 90% af öllum nýjum smitum sem greinast.
Fleiri en 14.500 manns hafa látist í faraldrinum í Svíþjóð, fleiri en í öðrum Norðurlöndum en færri en víða annars staðar í Evrópu. Sænsk stjórnvöld hafa skorið sig töluvert frá nágrannaríkjum sínum þar sem gripið hefur verið til mun vægari sóttvarnaaðgerða þar.
Uppfært 14.6.2021 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var misritað að smituðum hefði fjölgað síðasta mánuðinn eftir að þeim fjölgaði töluvert í vor. Það rétta er að smitunum hefur fækkað að undanförnu eftir bylgjuna sem gekk yfir.