Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að í skilaboðunum, sem eru á ensku, séu viðtakendur beðnir um að staðfesta farsímanúmer sín með því að smella á hlekk sem í kjölfarið vísi fólki inn á falska vefsíðu sem líkist innskráningarsíðu í netbanka Landsbankans.
Fólk er beðið um að smella ekki á umræddan hlekk, enda sé skeytið sent af svikahröppum en látið líta út fyrir að vera frá bankanum.
„Landsbankinn minnir á að bankinn sendir aldrei SMS-skeyti eða tölvupóst þar sem viðtakendur eru beðnir um að fara inn í netbankann sinn og skrá sig inn. Um leið er minnt á fræðslugrein á vef bankans um hvernig hægt er að þekkja muninn á fölskum og raunverulegum skilaboðum.“