Handbolti

Nagy verður ekki með Valsliðinu næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Nagy fagnar með Valsliðinu í vetur.
Martin Nagy fagnar með Valsliðinu í vetur. Vísir/Vilhelm

Martin Nagy, markvörður Íslandsmeistara Vals, sem fór á kostum í úrslitakeppninni með Valsliðinu hefur samkvæmt heimildum íþróttadeildar samið við þýska b-deildarliðið Gummersbach.

Nagy hafði gert munnlegt samkomulag við Val um að leika með félaginu á næstu leiktíð eins og hann greindi frá sjálfur í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport eftir að Valur vann Hauka í úrslitum Íslandsmótsins á Ásvöllum.

Umboðsmaður Nagy, Arnar Theódórsson, mun hafa boðið Gummersbach leikmanninn þrátt fyrir að hann hafi gert munnlegt samkomulag við Val. Samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá samþykkti ungverski markvörðurinn tilboð þýska liðsins í dag.

Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og með liðinu leika Elliði Snær Viðarsson og þá hefur Hákon Daði Styrmisson samið við félagið. Það er athyglisvert að Martin Nagy er hugsaður sem annar markvörður eða jafnvel þriðji markvörður þýska liðsins.

Valsmenn eru þó ekki á flæðiskeri staddir hvað varðar markmann því Björgvin Páll Gústavsson mun ganga til liðs við Val í sumar. Ljóst er aftur á móti að Valsmenn þurfa að leita sér að markmanni sem mun standa við hlið Björgvins Páls á næstu leiktíð.

Kannski vonbrigði fyrir Valsmenn sem tóku Nagy með það fyrir augum að hann myndi sýna og sanna hvað í honum býr. Það var hins vegar ekki fyrr en í síðari hluta mótsins sem mikil vinna skilaði sér hjá þessum unga ungverska markverði sem sló sannarlega í gegn þegar mest á reyndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×