Umfjöllun og viðtöl: Leiknir - Víkingur 2-1 | Leiknismenn fyrstir til að leggja Víkinga að velli Sindri Sverrisson skrifar 28. júní 2021 22:50 Leiknismenn hafa átt góðu gengi að fagna á heimavelli í sumar. vísir/hulda margrét Markaþurrð Leiknismanna lauk í kvöld þegar liðið varð fyrsta allra til að vinna Víkinga í sumar með 2-1 sigri í tíundu umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta. Víkingur er í 3. sæti deildarinnar með 19 stig eftir þetta fyrsta tap sitt, fimm stigum á eftir Val en með leik til góða, en Leiknir í 9. sæti með 11 stig, fimm stigum frá fallsæti. Tíu af stigum Leiknis hafa komið á Domusnova-vellinum þar sem nýliðarnir hafa notið sín svo vel í sumar. Leiknir hafði ekki skorað mark í 320 mínútur þegar Sævar Atli Magnússon, að sjálfsögðu, braut ísinn eftir hálftíma leik gegn Víkingum. Hann skoraði bæði mörk Leiknis í kvöld, það seinna úr víti, og jafnaði Nikolaj Hansen á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með átta mörk. Hansen bætti hins vegar við níunda marki sínu úr víti sem hann náði í sjálfur, korteri fyrir leikslok. Þung pressa Víkinga á lokakaflanum skilaði hins vegar engu því Leiknir, með Brynjar Hlöðversson fremstan í flokki og Guy Smit mjög góðan í markinu, stóð af sér storminn með sannfærandi hætti. Ingvar lék óvænt sinn fyrsta leik Fyrri hálfleikur var fjörugur en Leiknismenn vel að forystunni komnir í hléi. Sævar Atli Magnússon skoraði eina markið í fyrri hálfleik á 34. mínútu, eftir að Leiknismenn höfðu verið aðgangsharðir. Rétt áður hafði Máni Austmann Hilmarsson komist í færi einn gegn markverði, Emil Berger hættulegt skot og svo aukaspyrnu á Brynjar Hlöðversson sem skallaði framhjá. Guy Smit sá svo til þess á hinum enda vallarins að Leiknir fengi ekki á sig mark þrátt fyrir fínar tilraunir Víkinga, sérstaklega úr föstum leikatriðum Pablo Punyed. Pablo átti frábæra aukaspyrnu í stöng og út í upphafi leiks en lagði líka upp frábært skallafæri fyrir Karl Friðleif. Nikolaj Hansen var líka hársbreidd frá því að jafna metin þegar hann setti boltann yfir af stuttu færi, en staðan var 1-0 í hálfleik. Víkingar þurftu að gera breytingu í hálfleik þegar markvörðurinn Þórður Ingason fór meiddur af velli og Ingvar Jónsson lék sinn fyrsta leik í deildinni í sumar. Víkingar reiðir yfir seinna markinu Gestirnir reyndu að blása til sóknar í seinni hálfleik og voru mun meira með boltann, sérstaklega þegar leið á. Þeir fengu hins vegar mark í andlitið eftir klukkutíma leik þegar Sævar Atli skoraði úr víti sem dæmt var á Pablo, fyrir brot á Mána Austmann Hilmarssyni eftir snarpa skyndisókn sem Máni sá um sjálfur. Víkingar voru reiðir yfir því að fá ekki dæmda aukaspyrnu í aðdragandanum en góður og ekki síður skemmtilegur dómari leiksins, Erlendur Eiríksson, hafði beitt hagnaðarreglunni sem undirritaður telur hafa verið rétt mat. Eins og fyrr segir náðu Víkingar að minnka muninn úr annarri vítaspyrnu og þeir sendu svo turnana sína fram á lokakaflanum en sendingarnar skiluðu sér sjaldan nógu vel á þá, þökk sé Brynjari og félögum í vörn Leiknis. Það hafði reynt á Smit fyrir mark Hansen, til að mynda þegar hann varði frábærlega skalla frá Kwame Quee, en á lokakaflanum tókst Víkingum ekki að komast í nægilega góð færi. Af hverju vann Leiknir? Leiknismenn eru með stórhættulega sóknarmenn, sérstaklega Sævar Atla, og höfðu verið aðgangsharðir áður en hann skoraði fyrra mark sitt. Forystan í hléi var verðskulduð og heimamenn gerðu svo vel í að nýta skyndisókn í að auka forskotið. Eftir það snerist dæmið um baráttu og á henni var enginn skortur hjá Leiknismönnum sem reyndu lítið að halda í boltann síðasta hálftíma leiksins en vörðust af þeim mun meiri ákafa og uppskáru sigur. Hverjir stóðu upp úr? Einhvern veginn grunaði mann að í kvöldsólinni og kyrrðinni í Breiðholti í gærkvöld yrði það Sævar Atli sem myndi brjóta ísinn fyrir Leikni, og hann var að sjálfsögðu á hárréttum stað til að skora fyrra markið. Emil Berger átti góðar spyrnur úr föstum leikatriðum í fyrri hálfleik, og lagði upp markið fyrir Sævar Atla. Guy Smit varði vel allan leikinn, stundum frábærlega, og Brynjar Hlöðversson var sérstaklega áberandi í varnarleiknum þegar leið á seinni hálfleik þar sem hann skallaði boltann hvað eftir annað í burtu, í baráttu við sannkallaða sérfræðinga á því sviði. Pablo Punyed var stórhættulegur í föstum leikatriðum fyrir Víkinga en fékk svo reyndar dæmda á sig vítaspyrnu þegar hann reyndi að stöðva Mána í stórhættulegri stöðu. Hvað gekk illa? Karl Friðleifur gerði sig sekan um alvarleg mistök þegar Leiknir komst yfir í leiknum en vandamál Víkinga fólst þó að meira leyti í því hve erfiðlega gekk að koma góðum sendingum inn í vítateiginn í seinni hálfleiknum, á turnana sem þar voru mættir. Meiri þolinmæði til að byggja upp sóknir hefði ef til vill skilað sér betur. Hvað gerist næst? Leiknismenn eiga fyrir höndum leik við Breiðablik á Kópavogsvelli á laugardaginn og næsti heimaleikur þeirra er svo gegn ÍA 12. júlí. Víkingar mæta ÍA í Víkinni næsta mánudagskvöld. Arnar: Getur gert ýmislegt með baráttu og hjarta þó þú sért aðeins síðri í fótbolta „2-0 var of stórt fjall til að klifra. Ég óska Leiknismönnum til hamingju. Þeir lögðu líf sitt og sál að veði og þetta er það sem gerir fótboltann skemmtilegan. Þó þú sért kannski aðeins síðri í fótbolta þá getur þú gert ýmislegt með baráttu og hjarta,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Stöð 2 Sport. „Við fengum fín færi í leiknum til að skora en tökum ekkert frá Leiknismönnum. Þeir áttu þetta bara skilið. Voru hrikalega flottir með það hvernig þeir lögðu leikinn upp. Við lögðum vel í leikinn en það voru lítil mistök hingað og þangað. En við fengum svo sannarlega færin til að skora fleiri mörk. Þetta var frábært hjá Leiknismönnum,“ sagði Arnar. Aðspurður um þá taktík að senda Sölva Geir Ottesen og svo Kára Árnason fram, til að sækja með Nikolaj Hansen, svaraði Arnar: „Við urðum að hrista aðeins upp í þessu. Svo fengum við vítið en mér fannst við vera fullbráðir í að senda boltann fram eftir það. Þegar þú ert með þrjá risa frammi þá sogast boltinn að þeim en við hefðum getað nýtt þetta aðeins betur – fengið boltann út á kant og fyrirgjafir þaðan. Það komu 1-2 svoleiðis möguleikar og þá fannst mér færin koma. Því miður þá endaði þetta með fyrsta tapleiknum á árinu en það er enginn heimsendir. Við þurfum bara að girða okkur í brók. Þetta var stórt „setback“ en við erum enn með 19 stig og öll seinni umferðin eftir,“ sagði Arnar. Víkingar sækja sér liðsstyrk Arnar var ekkert að kvarta yfir aðdraganda seinna marks Leiknis og hugsanlegu broti hjá Leiknismönnum: „Það er bara hluti af leiknum. Ég á eftir að sjá það betur en þetta var klaufalega varist hjá okkur. Þeir fengu skyndisókn og mögulega var hagnaðarreglan ekki alveg að mynda hagnað fyrir okkur, en svona er þetta bara. Þetta er yndislegur leikur og þú færð oft það sem þú átt skilið út úr leiknum. Það vantaði eitthvað smá til að knýja fram sigur gegn baráttuglöðum Leiknismönnum,“ sagði Arnar. Arnar segir ljóst að Víkingar muni styrkja sig í leikmannaglugganum sem er að opnast: „Já, klárlega. Til að sýna að við ætlum að vera með í baráttunni bæði í deild og bikar þá held ég að við þurfum að hrista aðeins upp í hópnum og stuða hann aðeins. Það er alltaf gott og ég á von á að 1-2 leikmenn komi til okkar. Við erum búnir að gera tilboð, það eru góðir leikmenn sem munu hjálpa okkur mikið og vonandi gengur það upp.“ Pepsi Max-deild karla Víkingur Reykjavík Leiknir Reykjavík
Markaþurrð Leiknismanna lauk í kvöld þegar liðið varð fyrsta allra til að vinna Víkinga í sumar með 2-1 sigri í tíundu umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta. Víkingur er í 3. sæti deildarinnar með 19 stig eftir þetta fyrsta tap sitt, fimm stigum á eftir Val en með leik til góða, en Leiknir í 9. sæti með 11 stig, fimm stigum frá fallsæti. Tíu af stigum Leiknis hafa komið á Domusnova-vellinum þar sem nýliðarnir hafa notið sín svo vel í sumar. Leiknir hafði ekki skorað mark í 320 mínútur þegar Sævar Atli Magnússon, að sjálfsögðu, braut ísinn eftir hálftíma leik gegn Víkingum. Hann skoraði bæði mörk Leiknis í kvöld, það seinna úr víti, og jafnaði Nikolaj Hansen á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með átta mörk. Hansen bætti hins vegar við níunda marki sínu úr víti sem hann náði í sjálfur, korteri fyrir leikslok. Þung pressa Víkinga á lokakaflanum skilaði hins vegar engu því Leiknir, með Brynjar Hlöðversson fremstan í flokki og Guy Smit mjög góðan í markinu, stóð af sér storminn með sannfærandi hætti. Ingvar lék óvænt sinn fyrsta leik Fyrri hálfleikur var fjörugur en Leiknismenn vel að forystunni komnir í hléi. Sævar Atli Magnússon skoraði eina markið í fyrri hálfleik á 34. mínútu, eftir að Leiknismenn höfðu verið aðgangsharðir. Rétt áður hafði Máni Austmann Hilmarsson komist í færi einn gegn markverði, Emil Berger hættulegt skot og svo aukaspyrnu á Brynjar Hlöðversson sem skallaði framhjá. Guy Smit sá svo til þess á hinum enda vallarins að Leiknir fengi ekki á sig mark þrátt fyrir fínar tilraunir Víkinga, sérstaklega úr föstum leikatriðum Pablo Punyed. Pablo átti frábæra aukaspyrnu í stöng og út í upphafi leiks en lagði líka upp frábært skallafæri fyrir Karl Friðleif. Nikolaj Hansen var líka hársbreidd frá því að jafna metin þegar hann setti boltann yfir af stuttu færi, en staðan var 1-0 í hálfleik. Víkingar þurftu að gera breytingu í hálfleik þegar markvörðurinn Þórður Ingason fór meiddur af velli og Ingvar Jónsson lék sinn fyrsta leik í deildinni í sumar. Víkingar reiðir yfir seinna markinu Gestirnir reyndu að blása til sóknar í seinni hálfleik og voru mun meira með boltann, sérstaklega þegar leið á. Þeir fengu hins vegar mark í andlitið eftir klukkutíma leik þegar Sævar Atli skoraði úr víti sem dæmt var á Pablo, fyrir brot á Mána Austmann Hilmarssyni eftir snarpa skyndisókn sem Máni sá um sjálfur. Víkingar voru reiðir yfir því að fá ekki dæmda aukaspyrnu í aðdragandanum en góður og ekki síður skemmtilegur dómari leiksins, Erlendur Eiríksson, hafði beitt hagnaðarreglunni sem undirritaður telur hafa verið rétt mat. Eins og fyrr segir náðu Víkingar að minnka muninn úr annarri vítaspyrnu og þeir sendu svo turnana sína fram á lokakaflanum en sendingarnar skiluðu sér sjaldan nógu vel á þá, þökk sé Brynjari og félögum í vörn Leiknis. Það hafði reynt á Smit fyrir mark Hansen, til að mynda þegar hann varði frábærlega skalla frá Kwame Quee, en á lokakaflanum tókst Víkingum ekki að komast í nægilega góð færi. Af hverju vann Leiknir? Leiknismenn eru með stórhættulega sóknarmenn, sérstaklega Sævar Atla, og höfðu verið aðgangsharðir áður en hann skoraði fyrra mark sitt. Forystan í hléi var verðskulduð og heimamenn gerðu svo vel í að nýta skyndisókn í að auka forskotið. Eftir það snerist dæmið um baráttu og á henni var enginn skortur hjá Leiknismönnum sem reyndu lítið að halda í boltann síðasta hálftíma leiksins en vörðust af þeim mun meiri ákafa og uppskáru sigur. Hverjir stóðu upp úr? Einhvern veginn grunaði mann að í kvöldsólinni og kyrrðinni í Breiðholti í gærkvöld yrði það Sævar Atli sem myndi brjóta ísinn fyrir Leikni, og hann var að sjálfsögðu á hárréttum stað til að skora fyrra markið. Emil Berger átti góðar spyrnur úr föstum leikatriðum í fyrri hálfleik, og lagði upp markið fyrir Sævar Atla. Guy Smit varði vel allan leikinn, stundum frábærlega, og Brynjar Hlöðversson var sérstaklega áberandi í varnarleiknum þegar leið á seinni hálfleik þar sem hann skallaði boltann hvað eftir annað í burtu, í baráttu við sannkallaða sérfræðinga á því sviði. Pablo Punyed var stórhættulegur í föstum leikatriðum fyrir Víkinga en fékk svo reyndar dæmda á sig vítaspyrnu þegar hann reyndi að stöðva Mána í stórhættulegri stöðu. Hvað gekk illa? Karl Friðleifur gerði sig sekan um alvarleg mistök þegar Leiknir komst yfir í leiknum en vandamál Víkinga fólst þó að meira leyti í því hve erfiðlega gekk að koma góðum sendingum inn í vítateiginn í seinni hálfleiknum, á turnana sem þar voru mættir. Meiri þolinmæði til að byggja upp sóknir hefði ef til vill skilað sér betur. Hvað gerist næst? Leiknismenn eiga fyrir höndum leik við Breiðablik á Kópavogsvelli á laugardaginn og næsti heimaleikur þeirra er svo gegn ÍA 12. júlí. Víkingar mæta ÍA í Víkinni næsta mánudagskvöld. Arnar: Getur gert ýmislegt með baráttu og hjarta þó þú sért aðeins síðri í fótbolta „2-0 var of stórt fjall til að klifra. Ég óska Leiknismönnum til hamingju. Þeir lögðu líf sitt og sál að veði og þetta er það sem gerir fótboltann skemmtilegan. Þó þú sért kannski aðeins síðri í fótbolta þá getur þú gert ýmislegt með baráttu og hjarta,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Stöð 2 Sport. „Við fengum fín færi í leiknum til að skora en tökum ekkert frá Leiknismönnum. Þeir áttu þetta bara skilið. Voru hrikalega flottir með það hvernig þeir lögðu leikinn upp. Við lögðum vel í leikinn en það voru lítil mistök hingað og þangað. En við fengum svo sannarlega færin til að skora fleiri mörk. Þetta var frábært hjá Leiknismönnum,“ sagði Arnar. Aðspurður um þá taktík að senda Sölva Geir Ottesen og svo Kára Árnason fram, til að sækja með Nikolaj Hansen, svaraði Arnar: „Við urðum að hrista aðeins upp í þessu. Svo fengum við vítið en mér fannst við vera fullbráðir í að senda boltann fram eftir það. Þegar þú ert með þrjá risa frammi þá sogast boltinn að þeim en við hefðum getað nýtt þetta aðeins betur – fengið boltann út á kant og fyrirgjafir þaðan. Það komu 1-2 svoleiðis möguleikar og þá fannst mér færin koma. Því miður þá endaði þetta með fyrsta tapleiknum á árinu en það er enginn heimsendir. Við þurfum bara að girða okkur í brók. Þetta var stórt „setback“ en við erum enn með 19 stig og öll seinni umferðin eftir,“ sagði Arnar. Víkingar sækja sér liðsstyrk Arnar var ekkert að kvarta yfir aðdraganda seinna marks Leiknis og hugsanlegu broti hjá Leiknismönnum: „Það er bara hluti af leiknum. Ég á eftir að sjá það betur en þetta var klaufalega varist hjá okkur. Þeir fengu skyndisókn og mögulega var hagnaðarreglan ekki alveg að mynda hagnað fyrir okkur, en svona er þetta bara. Þetta er yndislegur leikur og þú færð oft það sem þú átt skilið út úr leiknum. Það vantaði eitthvað smá til að knýja fram sigur gegn baráttuglöðum Leiknismönnum,“ sagði Arnar. Arnar segir ljóst að Víkingar muni styrkja sig í leikmannaglugganum sem er að opnast: „Já, klárlega. Til að sýna að við ætlum að vera með í baráttunni bæði í deild og bikar þá held ég að við þurfum að hrista aðeins upp í hópnum og stuða hann aðeins. Það er alltaf gott og ég á von á að 1-2 leikmenn komi til okkar. Við erum búnir að gera tilboð, það eru góðir leikmenn sem munu hjálpa okkur mikið og vonandi gengur það upp.“
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti