Körfubolti

Guðrún hætt og engin kona þjálfari í efstu deild

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Ósk Ámundadóttir skilaði bikarmeistaratitli í Borgarnes. Titli sem Skallagrímur heldur enn þar sem að ekki hefur tekist að ljúka bikarkeppni í körfubolta í ár né í fyrra, vegna kórónuveirufaraldursins.
Guðrún Ósk Ámundadóttir skilaði bikarmeistaratitli í Borgarnes. Titli sem Skallagrímur heldur enn þar sem að ekki hefur tekist að ljúka bikarkeppni í körfubolta í ár né í fyrra, vegna kórónuveirufaraldursins. vísir/Daníel

Guðrún Ósk Ámundadóttir er hætt sem þjálfari ríkjandi bikarmeistara Skallagríms í körfubolta kvenna. Þar með er sem stendur engin kona aðalþjálfari í efstu deild í körfubolta.

Áður hafði Ólöf Helga Pálsdóttir hætt eftir að hafa stýrt Grindavík upp í efstu deild en við starfi hennar tók Þorleifur Ólafsson og gerði samning til þriggja ára. Skallagrímur hefur aftur á móti ekki tilkynnt um arftaka Guðrúnar.

Undir stjórn Guðrúnar endaði Skallagrímur í 6. sæti af átta liðum í Dominos-deildinni í vetur, með 16 stig líkt og Breiðablik sem endaði sæti ofar.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Guðrún það ógleymanlegt að hafa tekið þátt í að endurreisa kvennalið í Borgarnesi og skila bikarmeistaratitli í heimabæinn sinn, eins og hún gerði árið 2019. Á næstu leiktíð verði hún hins vegar meðal áhorfenda, í fyrsta sinn í tuttugu ár.

„Í síðustu viku tók ég þá erfiðu ákvörðun að gefa ekki kost á mér sem þjálfari kvennaliðs Skallagríms fyrir næsta tímabil. Það verður skrítin tilfinning að taka þátt sem áhorfandi á pöllunum í fyrsta sinn í tæp 20 ár,“ skrifaði Guðrún og bætti við:

„Síðustu ár hafa átt sérstakan stað í mínu hjarta, fyrst sem leikmaður og síðar sem aðalþjálfari liðsins. Að hafa tekið þátt í að endurreisa kvennalið í Borgarnesi og skila bikarmeistaratitli heim er ógleymanleg upplifun. Ég vil þakka öllum leikmönnum og stuðningsmönnum fyrir frábæran tíma ásamt stjórn Skallagríms fyrir það traust sem þau hafa sýnt mér.

Takk fyrir mig og áfram Skallagrímur!!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×