Fótbolti

Sancho kostar United tólf og hálfan milljarð

Sindri Sverrisson skrifar
Jadon Sancho spilar með Manchester United á komandi leiktíð sem hefst í ágúst.
Jadon Sancho spilar með Manchester United á komandi leiktíð sem hefst í ágúst. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Borussia Dortmund og Manchester United hafa lýst því yfir að samkomulag á milli félaganna sé í höfn vegna kaupa United á enska landsliðsmanninum Jadon Sancho.

Sancho er 21 árs gamall kantmaður og er í enska landsliðshópnum sem mætir Úkraínu í Róm á laugardagskvöld, í átta liða úrslitum Evrópumótsins.

Samkvæmt tilkynningu Dortmund nemur kaupverðið 85 milljónum evra (eða 73 milljónum punda) sem jafngildir tæplega tólf og hálfum milljarði íslenskra króna.

Sancho verður þar með næstdýrasti, enski knattspyrnumaður sögunnar á eftir Harry Maguire sem United keypti frá Leicester árið 2019, fyrir 80 milljónir punda.

Koma Sancho til United ætti að auka samkeppnishæfni liðsins gagnvart Manchester City í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn en City hagnast fjárhagslega á endurkomu leikmannsins til Manchesterborgar. Sancho var seldur frá City til Dortmund fyrir 10 milljónir punda fyrir fjórum árum en City fær 15% af kaupverðinu nú, eða 9,5 milljónir punda (1,6 milljarð króna).

Sancho skoraði átta mörk í 26 leikjum í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð, og hefur alls skorað 38 mörk í 104 leikjum í þýsku 1. deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×