„Markmið Samgöngusáttmálans er að auka valkosti þegar kemur að samgöngum en aldrei fyrr hefur verið lagt í jafn umfangsmiklar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu vegna fundarins.
Þar segir ennfremur að uppbygging stofnvegakerfisins sé stærsti einstaki þátturinn í sáttmálanum en hann feli einnig í sér uppbyggingu almenningssamgangnakerfisins, lagningu göngu- og hjólastíga og verkefni sem snúi að bættu umferðaröryggi og flæði.
Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á lokaáfanga Arnarnesvegar. Sá áfangi mun liggja frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að Breiðholtsbraut. Hann á að létta verulega á umferð um Vatnsendaveg í Kópavogi og er sagður ein af forsendum uppbyggingar í efri hverfum bæjarins.
Fundurinn hefst klukkan tíu í dag og má fylgjast með honum hér að neðan og á Facebooksíðu Vegagerðarinnar.
Dagskrá fundarins:
• Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna, setur fundinn.
• Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, fjallar um stöðu einstaka stofnvegaframkvæmda innan Samgöngusáttmálans.
• Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni, kynnir Arnarnesveg
• Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, ræðir um Arnarnesveg
• Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, fjallar um Arnarnesveg og uppbyggingu Vetrargarðsins í nálægð við veginn.
• Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, ræðir mikilvægi greiðra samgangna fyrir viðbragðsaðila.