Slysið varð þegar tvær bifreiðar skullu framan á hvora aðra. Allir átta farþegarnir hafa verið fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Ekki er þó talið að um alvarlega áverka hafi verið að ræða.
Talsvert tjón er þó á bifreiðunum tveimur.
Lögregluþjónar og slökkviliðsmenn eru enn við vinnu á vettvangi en slysið varð á fjórða tímanum í dag.
Slysið varð nánar tiltekið á hringveginum, skammt austan við Námaskarð. Þeir sem eru á ferð um svæðið geta búist við töfum næstu eina og hálfa klukkustundina. Samkvæmt lögreglu er hægt að hleypa bílum í gegnum slysstaðinn meðan vinnan stendur yfir en það gengur hægt.
Fréttin var uppfærð klukkan 17:52. Upphaflega var talað um sjö farþega, en rétt er að þeir voru átta.