Fyrir byggðaráði liggur tillaga um að 33 ferkílómetra landbúnaðarsvæði á Hólaheiði á Melrakkasléttu verði skilgreint sem iðnaðarsvæði svo unnt verði að leggja það undir vindorkuver. Svæðið var sýnt í fréttum Stöðvar 2 en það er sunnan Hófaskarðsleiðar, vegarins sem liggur þvert yfir Sléttuna, milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar.

„Hér ætla stórhuga Fransmenn að byggja fjörutíu vindmyllur eða svo,“ segir Pétur Þorsteinsson, fyrrverandi skólastjóri á Kópaskeri, og lýsir þessu sem hervirki.
„Um það bil þriðjungurinn á leiðinni milli Raufarhafnarafleggjara og Núpasveitar verður undir vindmylluskógi, tvöhundruð metra háum,“ segir skólastjórinn fyrrverandi.
Hann segir að þessu fylgi spennivirki og háspennulínur um alla sveitina til Þeistareykja. Þær muni blasa við ferðamönnum á Demantshringnum þegar þeir horfi af brekkunni fögru á Tjörnesi yfir Kelduhverfi og Öxarfjörð.
„Það fyrsta sem blasir við þeim er stálmastraskógur.“

Pétur er ekki einn. Fjórtán athugasemdir bárust frá aðilum á Kópaskeri og nærsveitum og allar neikvæðar. Kaupmannshjónin á Kópaskeri, þau Inga Sigurðardóttir og Guðmundur Baldursson, efast um að vindorkuver gagnist samfélaginu.
„Við sjáum ekki alveg hvað það gefur samfélaginu annað en að fæla burtu túristana. Því þeir koma hérna til að sjá víðernið og víðáttuna. Þeir sjá hana ekki lengur ef það eru komnar vindmyllur þarna uppfrá,“ segir Inga.
„Svo er ég nú áhugamaður um fugla. Ég hef töluverðar áhyggjur bæði af farflugi og flugi gæsa á þessu svæði og annarra fugla,“ segir Guðmundur.

„Víðáttan, víðsýnið, fámennið, náttúran. Þetta er sú auðlind sem er okkur dýrmætust, til lengri tíma litið, því þetta er að verða ákaflega sjaldgæft,“ segir Pétur.
Byggðaráð hefur núna frestað skipulagsbreytingunni og ákveðið að efna til viðhorfskönnunar meðal íbúa.
„Það eru örugglega einhverjir sem eru hlynntir þessu. Ég efast ekkert um það. En það eru líka margir sem eru á móti þessu. Og auðvitað eru miklir hagsmunir í málinu. Þetta á eftir að tæta sundur samfélagið,“ segir Pétur Þorsteinsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: