Fótbolti

Spilaði sinn fyrsta leik í níu mánuði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Joe Gomez og Virgil van Dijk spiluðu báðir sinn fyrsta fótboltaleik í marga mánuði í kvöld.
Joe Gomez og Virgil van Dijk spiluðu báðir sinn fyrsta fótboltaleik í marga mánuði í kvöld. John Powell/Liverpool FC via Getty Images

Stuðningsmenn Liverpool höfðu ástæðu til að fagna þrátt fyrir tap liðsins fyrir Herthu Berlín í æfingaleik í Þýskalandi í dag. Miðverðirnir Virgil van Dijk og Joe Gomez sneru aftur eftir langvinn meiðsli.

Van Dijk sleit krossband eftir að hafa lent saman við Jordan Pickford, markvörð Everton, í grannaslag liðanna í október í fyrra. Hann fór í aðgerð undir lok þess mánaðar og hefur verið frá síðan.

Endurhæfing hans virðist vera að skila árangri þar sem hann kom inn á sem varamaður á 68. mínútu í leik kvöldsins, sínum fyrsta í rúma níu mánuði.

Miðvarðavandræði Liverpool á síðustu leiktíð einangruðust ekki við van Dijk þar sem Englendingurinn Joe Gomez lenti í samskonar meiðslum á æfingu með enska landsliðinu í nóvember. Gomez hefur, líkt og van Dijk, verið frá síðan en hann spilaði einnig sinn fyrsta leik um margra mánaða skeið er honum var skipt inn samhliða van Dijk í leik kvöldsins.

Liverpool lenti 2-0 undir gegn Berlínarbúum í kvöld eftir mörk Argentínumannsins Santiago Ascacibar og Tyrkjans Suat Serdar. Sadio Mané og Takumi Minamino skoruðu eitt mark hvor með skömmu millibili undir lok fyrri hálfleiks til að jafna leikinn 2-2.

Svartfellingurinn Stevan Jovetic skoraði aftur á móti fyrir Herthu á 66. mínútu leiksins, en hann er nýgenginn í raðir þýska félagsins. Þá náðu þeir Gomez og van Dijk ekki að halda hreinu á sínum skamma tíma á vellinum þar sem Jovetic bætti öðru marki sínu við á 80. mínútu.

Alex Oxlade-Chamberlain minnkaði muninn fyrir Liverpool skömmu fyrir leikslok en Hertha fagnaði 4-3 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×