Fótbolti

Nær allir Íslendingarnir komust áfram í Noregi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Alfons Sampsted

Önnur umferð norsku bikarkeppninnar fór fram í dag þar sem nokkrir íslenskir knattspyrnumenn voru í eldlínunni.

Í annarri umferð bikarkeppninnar mæta úrvalsdeildarliðin liðum úr neðri deildum og ekkert Íslendingalið klikkaði á því að klára það sem ætti að teljast skyldusigur ef frá er talið tap Sandefjord gegn Arendal þar sem Viðar Ari Jónsson kom inn af bekknum og skoraði eitt mark í 4-5 tapi í framlengdum leik.

Liðsfélagar Viðars Arnar Kjartanssonar í Valerenga lentu einnig í kröppum dansi en unnu Ullern 1-3 eftir framlengdan leik. Viðar Örn var ekki í leikmannahópi Valerenga.

Björn Bergmann Sigurðarson lék fyrsta klukkutímann þegar Molde lagði Hödd, 1-2. Alfons Sampsted lék nær allan leikinn í 1-3 sigri Bodo/Glimt á Junkeren.

Samúel Kári Friðjónsson lék síðasta hálftímann fyrir Viking þegar liðið lagði Djerv 1919 að velli, 0-2. 

Emil Pálsson lék allan leikinn fyrir Sarpsborg 08 sem lagði Nordstrand að velli, 0-3.

Brynjólfur Darri Willumsson lék allan leikinn í framlínu Kristiansund sem vann 1-5 sigur á neðri deildarliðinu Tiller IL. Á sama tíma sat Hólmar Örn Eyjólfsson allan tímann á varamannabekknum og horfði á liðsfélaga sína í Rosenborg vinna 1-11 sigur á Orkla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×