Fótbolti

Arsenal að ganga frá kaupum á Ramsdale

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ramsdale hefur staðið sig vel síðustu tvö tímabil í úrvalsdeildinni en fallið í bæði skipti. Fyrst með Bournemouth og svo með Sheffield United í vor.
Ramsdale hefur staðið sig vel síðustu tvö tímabil í úrvalsdeildinni en fallið í bæði skipti. Fyrst með Bournemouth og svo með Sheffield United í vor. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal er við það að ganga frá kaupum á markverðinum Aaron Ramsdale frá Sheffield United. Kaupverðið er talið nema 24 milljónum punda sem geti hækkað í 30 milljónir.

Ramsdale var valinn leikmaður tímabilsins hjá Sheffield United er liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í fyrra. Hann hafði árið áður varið mark Bournemouth, sem einnig féll, tímabilið 2019-20.

Arsenal hefur verið á höttunum eftir Ramsdale í allt sumar en viðræður milli félaganna virtust hafa runnið út í sandinn þar sem Sheffield vildi og háa fjárhæð fyrir kappann. Samkomulag virðist hins vegar nú vera í höfn ef marka má David Ornstein, blaðamann The Athletic. Ramsdale mun skrifa undir fjögurra ára samning með möguleika á árs framlengingu.

Ramsdale mun veita Bernd Leno samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Arsenal en sá síðarnefndi hefur sætt gagnrýni síðustu misseri. Rúnar Alex Rúnarsson mun eflaust falla aftar í goggunarröðina við skiptin en hann hefur verið orðaður við brottför frá enska liðinu.

Arsenal er einnig nálægt því að ganga frá kaupum á Norðmanninum Martin Ödegaard frá Real Madrid en sá var á láni í Lundúnum á síðustu leiktíð.

2-0 tap fyrir Brentford í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina virðist hafa hvatt stjórnarmenn hjá félaginu til að spíta í lófana á markaðnum en fyrsti heimaleikur liðsins á leiktíðinni er um helgina þar sem meistaraefni Chelsea koma í heimsókn í Lundúnaslag á Emirates-leikvangnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×