Erlent

Fordæmalaus rigning efst á Grænlandsjökli

Kjartan Kjartansson skrifar
Enginn búnaður er til að mæla rigningu á Tindstöðinni á toppi Grænlandsjökuls þar sem engar heimildir eru fyrir regni þar.
Enginn búnaður er til að mæla rigningu á Tindstöðinni á toppi Grænlandsjökuls þar sem engar heimildir eru fyrir regni þar. Vísir/Getty

Rigning féll á hæsta punkti Grænlandsjökuls í nokkrar klukkustundir um síðustu helgi en það eru fyrstu heimildirnar um regn þar. Úrkoman fylgdi hlýindum og mikilli bráðnun á jöklinum.

Vísindamenn í Tindstöðinni nærri efsta punkti Grænlandsjökuls vöknuðu við regndropa á laugardagsmorgun. Washington Post segir að það komi fyrir að það rigni á jöklinum en engar frásagnir eru af rigningu við hæsta punktinn sem er í meira en 3.200 metra hæð yfir sjávarmáli.

Ekki var hægt að mæla hversu mikið regn féll þar sem engir úrkomumælar eru í stöðinni enda er ekki gert ráð fyrir rigningu þar.

Hitinn við tindinn var yfir frostmarki í um níu klukkustundir samkvæmt Snjó- og ísmiðstöð Bandaríkjanna (NSIDC). Það er í þriðja skiptið á innan við áratug sem hitinn fer upp fyrir frostmark þar. Á sumum svæðum var allt að átján gráðum hlýrra en vanalega á þessum tíma árs.

Hlýindunum fylgdi mikil bráðnun á jöklinum á um 827.000 ferkílómetra svæði þegar mest lét laugardaginn 14. ágúst. Þetta var annar bráðnunaratburðurinn af þessari stærðargráðu í sumar. Þetta er aðeins annað árið þar sem verða tveir bráðnunaratburðir en það gerðist síðast árið 2012.

Grænlandsjökull hefur rýrnað mjög vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Massatap hans hefur sexfaldast á undanförnum þrjátíu árum samkvæmt nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kom út í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Meiri vissa um alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga en lausnir mögulegar

Framfarir í vísindum undanfarin ár hafa skotið enn fastari stoðum undir spár um hnattræna hlýnun og afleiðingar hennar. Meiri vissa er nú fyrir því en áður að aftakaatburðir verði tíðari og afdrifaríkari samkvæmt nýrri tímamótaskýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×