Erlent

Hræðast að íslamska ríkið ráðist á flug­völlinn í Kabúl

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Afganar safnast enn saman við flugvöllinn í Kabúl í von um að komast úr landinu.
Afganar safnast enn saman við flugvöllinn í Kabúl í von um að komast úr landinu. Getty/Sayed Khodaiberdi Sadat

Bandaríkin hafa varað ríkisborgara sína við því að vera í nálægð við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl. Þau hræðast nú að armur hryðjuverkasamtakanna, sem kenna sig við íslamskt ríki, í Afganistan beini spjótum sínum að flugvellinum.

Mikil ringulreið hefur verið á og í kring um flugvöllinn undanfarna viku, frá því að Talibanar náðu völdum í höfuðborginni Kabúl og landinu öllu. Þúsundir hafa safnast saman í kring um flugvöllinn í von um að ná að smygla sér inn á hann og komast um borð í flugvél á leið úr landinu.

Bandaríkin gáfu út öryggisviðvörun til ríkisborgara sinna í Kabúl í gær þar sem þeim var sagt að halda sig fjarri flugvellinum vegna mögulegrar öryggisógnar. Aðeins þeir sem bandarísk yfirvöld hefðu haft samband við sérstaklega, um að þau ættu pláss um borð í flugvél, ættu að nálgast flugvöllinn.

Bandarísk yfirvöld leita nú annarra leiða til að koma ríkisborgurum sínum úr landinu. Engar frekari upplýsingar voru gefnar um meinta öryggisógn og íslamska ríkið hefur ekki sent frá sér yfirlýsingu um mögulega hryðjuverkaárás.

Eins og áður segir hefur verið mikil ringulreið við flugvöllinn undanfarna daga og greindi breska varnarmálaráðuneytið frá því í morgun að sjö hafi látist í troðningi við flugvöllinn.

Óljóst er hvort hinir látnu krömdust í troðningnum, köfnuðu eða fengu hjartaáfall en hermenn sáust leggja hvít klæði yfir líkin til að hylja þau. Aðrir hermenn stóðu ofan á farartálmum og flutningagámum þar sem þeir reyndu að koma ró á æstan lýðinn. Einnig heyrðust skothvellir að sögn AP-fréttaveitunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×