Karfan.is kveðst hafa heimildir fyrir skiptunum en Selby er þrítugur bakvörður sem lék síðast í Nýja-Sjálandi með liði Franklin Bulls. Þar skoraði hann 24 stig að meðaltali í leik og var auk þess með fimm fráköst, fjórar stoðsendingar og tvo stolna bolta að meðaltali.
Selby lék með Memphis Grizzlies í NBA-deildinni í Bandaríkjunum eftir að hafa verið valinn 49. í röðinni í nýliðavalinu sumarið 2011. Hann hafði þá verið valinn verðmætasti leikmaður Sumardeildar NBA ásamt Damian Lillard sem leikur með Portland Trailblazers og varð nýlega Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu.
Hann var á mála hjá Grizzlies frá 2011 til 2013 en hefur síðan farið víða um heim eftir að hafa leikið með liðum í þróunardeild NBA. Hann hefur leikið í Kína, Suður-Kóreu, Króatíu, Ísrael, Tyrklandi og Argentínu auk Nýja-Sjálands.
Allt stefnir í að Ísland bætist nú á lista hans.