Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður sambandsins í fyrradag í kjölfar þess að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og greindi frá því að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu leikmanns karlalandsliðsins í knattspyrnu haustið 2017. Leikmaðurinn, sem reyndist vera Kolbeinn Sigþórsson, hafi gengist við ofbeldinu og greitt henni miskabætur. Guðni hafi vitað af málinu en sagði í Kastljósi í síðustu viku að ekkert kynferðisofbeldismál hafi komið inn á borð stjórnar KSÍ.
Stjórnin sagði þá af sér í gær, en hafði áður sagt að hún myndi sitja áfram. Nú standa öll spjót á Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra, sem segist ekki vera að íhuga stöðu sína.
Klara hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal í dag, frekar en aðrir stjórnarmenn. Stjórnin, sem mun starfa í fjórar vikur fram að aukaþinginu, hefur þó gefið það út að hún hyggist ekki víkja Klöru úr starfi.
Gætu litið svo á að sambandið væri óstarfhæft
Borghildur Sigurðardóttir, annar varaformanna sambandsins, sagði fréttastofu þó í dag að ef stjórnin myndi ákveða að víkja framkvæmdastjóra úr starfi, gæti Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA litið svo á að sambandið væri óstarfhæft.
FIFA gæti þá gripið í taumana og tekið yfir stjórn sambandsins á grundvelli neyðarlaga. Á blaðamannafundi Arnars Þórs Viðarssonar, þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta, í dag kom fram að það hefði aðeins gerst tvisvar áður, í Bosníu vegna stríðsástands og Grikklandi vegna fjármálakrísu.