Mikið hefur gengið á í íslensku íþróttalífi á þeim örfáu dögum sem liðnir eru frá því að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir greindi frá ofbeldi af hálfu landsliðsmanns.
Eftir maraþonfundi í Laugardalnum bárust þær fregnir úr höfuðstöðvum KSÍ á sunnudag að Guðni Bergsson væri hættur sem formaður, þremur dögum eftir að hann sagði enga tilkynningu um kynferðisbrot hafi borist sambandinu. Seint á mánudag var svo tilkynnt að stjórn KSÍ væri á leið út. Þá er Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, farin í leyfi.
Byggt á fréttum íslenskra fjölmiðla
Í frétt BBC er málið reifað og vísað í fréttir íslenskra fjölmiðla um málið, þar á meðal viðtal Vísis við Þórhildi Gyðu sem birtist á laugardag, þar sem hún sagði að minnst sex núverandi eða fyrrverandi landsliðsmenn í fótbolta hafi verið sakaðir um ofbeldi.
Aðalefni fréttar BBC eru orð Katrínar Jakobsdóttur um málið eftir ríkisstjórnarfund í gær þar sem hún sagði að það væri dapurlegt að fylgjast með þeirri atburðarrás sem farið hafi af stað vegna málsins. Sagði hún mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin myndi læra af málinu og gera það sem hún gæti gert til að koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni.
Þá er stuttlega fjallað um hlut Guðna Bergssonar í málinu í frétt BBC, og hvernig hann hafi sagt af sér eftir að hafa sagt í viðtali að KSÍ hafi ekki borist neinar tilkynnigar um kynferðisofbeldi. Guðni er vel þekktur í Bretlandi enda á hann að baki langan og farsælan feril sem knattspyrnumaður með enskum félagsliðum.
Bandaríski fjölmiðillinn NPR fjallaði einnig um málið í gær á samskonar hátt og BBC. Er málið reifað og vísað í fréttir íslenskra fjölmiðla. Þá hefur ríkisútvarp Írlands, RTE, fjallað um málið á vefsíðu miðilsins, á sama hátt og BBC og NPR, auk þess sem að fjallað er um málið á vef Mirror.