Eins og margir aðrir vakti Birta lang fram eftir nóttu til þess að fylgjast með stjörnunum ganga rauða dregilinn á Met Gala góðgerðarviðburðinum sem haldinn var í New York í nótt. Dress tónlistarmannsins Lil Nas X og fyrirsætunnar Kendall Jenner stóðu upp úr að mati Birtu, á meðan raunveruleikastjarnan Kim Kardashian hitti ekki alveg í mark.
„Ég hef aldrei verið eins vonsvikin,“ segir Birta Líf sem segist hafa beðið spennt eftir því að sjá hverju Kim myndi klæðast.
![](https://www.visir.is/i/D617E37EEBC468118451ED105BE39E7F1D35D4A9C229EBA50F3F7139333436EC_713x0.jpg)
Eins og vart hefur farið framhjá neinum sem hefur opnað samfélagsmiðla í dag, klæddist Kim svörtu dressi frá toppi til táar í bókstaflegri merkingu. Hún var með svarta lambhúshettu sem huldi andlit hennar, þrátt fyrir að förðunarfræðingur hennar, Mario, hafi eytt dágóðum tíma í að farða hana.
Kim mætti ásamt svartklæddum manni sem í fyrstu var talið að væri hennar fyrrverandi, Kanye West. Samkvæmt slúðurmiðlum vestanhafs var grímuklæddi maðurinn þó ekki Kanye, heldur Balenciaga hönnuðurinn Demma Gvasalia.
Í Brennslutei vikunnar ræddi Birta Líf einnig um trúlofun poppprinsessunnar Britney Spears og drama á milli MMA-kappans Connor McGregor og tónlistarmannsins Machine Gun Kelly á MTV tónlistarhátíðinni.
Þá var að sjálfsögðu ekki hægt að ræða Hollywood-slúður án þess að ræða óléttu afhafnakonunnar Kylie Jenner sem hún deildi í Instagram-myndbandi í síðustu viku.
Sjá einnig: Staðfestir að von sé á öðru barni
„Ég horfði á þetta svona 18 þúsund sinnum til að reyna fatta allt. Samkvæmt því sem ég hef séð og lesið um þetta myndband og miðað við neglurnar sem hún er með þegar hún heldur á sónarmyndinni og prófinu, þá er þetta desember eða janúar barn.“
Hægt er að hlusta á Brennslute vikunnar með Birtu Líf í heild sinni hér að neðan.