Fyrr í vikunni var spáð afleitu veðri á kjördag, suðvestan rigningarstormi. Áhyggjur voru af því að slíkt veður gæti dregið úr kjörsókn og seinkað talningu sums staðar á landsbyggðinni þar sem flytja þarf atkvæði yfir fjallvegi eða sjóleiðina.
Lægðin sem veldur veðrinu hefur þó tekið breytingum og vindur er nú norðlægari, að sögn Teits Arasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Víða er allshvasst eða strekkingur. Kaldara veður þýðir að úrkoma sem er spáð á landinu norðan- og austanverðu fellur líklega sem snjór eða slydda á heiðum og fjallvegum.
„Það er möguleiki að það verði ekki greiðfært með atkvæðin yfir fjallvegi eftir að kjörstaðir loka í kvöld,“ segir Teitur.
Í versta falli geti björgunarsveitir þó flutt atkvæðin en þær hafi oft lagt á heiðar í verra veðri en spáð er í kvöld.
Á láglendi ætti hins vegar að vera greiðfært alls staðar. Teitur segir breytingarnar á veðrinu frá fyrri spám betri fyrir kjörsókn. „Í slagviðri eins og átti að vera hefðu kannski einhverjir síður farið á kjörstað,“ segir hann.
Á höfuðborgarsvæðinu er prýðilegasta veður en það er ekki dæmigert fyrir veðrið annars staðar á landinu. Teitur segir langbesta veðrið á landinu þar. Ekki er spáð úrkomu og þá er stór hluti borgarinnar í skjóli fyrir vindáttinni.