Borchardt lést 67 ára gamall eftir stutta sjúkrahúsinnlögn, eins og flokkur hans Die Rechte (ísl. Hægrið) greindi frá í yfirlýsingu. Sá flokkur er róttækara klofningsbrot úr AfD, sem er fyrir sitt leyti öfgaflokkur á hægrivæng.
„SS-Siggi“ átti langan feril að baki sem opinber nýnasisti. Á áttunda áratugnum fór hann fyrir Borussenfront, sem var nýnasísk hreyfing fótboltabulla og stuðningsmanna Borussia Dortmund. Þar tók hann þátt í ofsóknum á hendur minnihlutahópum eins og svartra og gyðinga og var margsinnis handtekinn fyrir óspektir.

Í viðtali við Spiegel árið 2014 var Siggi spurður út í gælunafnið „SS-Siggi“. Þar sagðist hann ekki sáttur við að vera kenndur við SS, sem sagt stormsveitir nasista, heldur grínaðist hann með að vilja raunar heldur vera kallaður „SA-Siggi“ og vera þannig kenndur við brúnstakka, sem var önnur eining innan nasistaflokks Hitlers.
Sama ár rataði það í heimsfréttirnar þegar Siggi náði inn í borgarstjórn í Dortmund sem fulltrúi flokks síns, en vegna heiftúðugra mótmæla gegn setu hans þar hrökklaðist hann úr embætti tveimur mánuðum síðar. Á stefnuskrá flokksins í þeim kosningum var meðal annars að stöðva „innrás hælisleitenda“ og að koma því þannig fyrir aftur að hjónaband yrði aðeins á milli karls og konu.
Síðast sat Siggi inni í nokkra mánuði árið 2018 fyrir að svívirða lögregluþjóna á mótmælum. Die Rechte er ekki með kjörinn fulltrúa á þýska þinginu en er enn með fulltrúa í sveitarstjórn Dortmund.
