Fótbolti

Urðu öfundsjúkir og fjarlægðu myndir af kvennaliðinu úr sameiginlegum klefa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kvennalið Sandviken á góða möguleika á að vinna tvöfalt, bæði deild og bikar.
Kvennalið Sandviken á góða möguleika á að vinna tvöfalt, bæði deild og bikar. getty/Rune Hellestad

Þjálfurum karlaliðs Sandviken í Noregi fannst góður árangur kvennaliðs félagsins hafa truflandi áhrif á strákana sína og fjarlægðu myndir af leikmönnum þess úr sameiginlegum búningsklefa liðanna. Málið hefur vakið mikla athygli í Noregi enda furðulegt í meira lagi.

Kvennaliði Sandviken hefur gengið allt í haginn það sem af er tímabili. Liðið er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar og komið í bikarúrslit. Á meðan er karlalið Sandviken í 9. sæti norsku D-deidlarinnar.

Einn daginn þegar leikmenn kvennaliðs Sandviken komu inn í búningsklefann sáu þær að andlitsmyndir af þeim höfðu verið fjarlægðar. Þær fundust á endanum í sjúkraherbergi.

Þjálfarar karlaliðsins viðurkenndu að hafa fjarlægt myndirnar af kvennaliðinu því þær hafi haft truflandi áhrif á strákana þeirra. Aðalþjálfarinn Magne Hesmyr Nilsen segir málið storm í vatnsglasi.

Eftir þessa uppákomu ákvað kvennaliðið að færa sig í annan og minni búningsklefa til að leikmannamyndirnar fengju að vera í friði fyrir öfundsjúkum þjálfurum karlaliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×