Erlent

Á þriðja tug látinn í miklum eldsvoða í Taívan

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmenn berjast við bálið í borginni Kaohsiung í sunnanverðu Taívan í nótt.
Slökkviliðsmenn berjast við bálið í borginni Kaohsiung í sunnanverðu Taívan í nótt. AP/EBC

Að minnsta kosti tuttugu og fimm eru látnir eftir mikinn eldsvoða í þrettán hæða blokk í sunnanverðu Taívan í nótt. Yfirvöld búast við því að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar.

Eldurinn kviknaði í blokkinni í borginni Kaohsiung um klukkan þrjú í nótt að staðartíma. Slökkviliðið þar segir að eldurinn hafi verið ákafur og eyðilagt margar hæðir hússins, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Fimmtíu og fimm manns voru fluttir á sjúkrahús en af þeim hafa tuttugu og fimm þegar verið lýstir látnir. Li Ching-hsiu slökkviliðsstjóri segist búast við því að allt að fjörutíu manns kunni að hafa farist.

Upptök eldsins eru enn óljós en slökkviliðsmenn sögðu að eldurinn hefði brunnið glaðast þar sem mikið af rusli hafði safnast saman. Þá segjast vitni hafa heyrt sprengingu um klukkan þrjú í nótt.

Byggingin er sögð um fjörutíu ára gömul. Verslanir eru á neðstu hæð hennar en íbúðir á efri hæðum. Neðstu hæðirnar brunnu til kaldra kola.

Uppfært 8:30 Nú segja taívönsk yfirvöld að 46 séu látnir eftir eldsvoðann og 41 sé slasaður. Reuters-fréttastofan hefur eftir Chen Chi-mai, borgarstjóra í Kaohsiung, að byggingin hafi staðið auð að hluta til en hún hýsti áður veitingastaði, kvikmyndahús og kareókístað. Rannsókn beinist nú að því hvort að kveikt hafi verið í húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×