Miklar óeirðir hafa riðið yfir landið síðan mjanmarski herinn tók völd þann 1. febrúar síðatliðinn. Herinn hefur verið sakaður um ýmis ódæðisverk og að hafa beitt óhóflegu valdi gegn almennum borgurum. Herforingjastjórnin hefur þó kennt „hryðjuverkamönnum“, sem starfi með stjórnarandstöðunni, um ófriðinn. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Utanríkisráðuneyti herforingjastjórnarinnar er síður en svo sátt með skýrslu sendifulltrúanna Christine Schraner Burgener og Tom Andrews. Samkvæmt ráðuneytinu sýni skýrslurnar mynd sem sé langt frá raunveruleikanum og sýni í raun bara fyrir fram ákveðnar hugmyndir Sameinuðu þjóðanna um stöðuna í Mjanmar.
Schraner Burgener, sem hefur sinnt hlutverki sendifulltrúa fyrir SÞ undanfarin þrjú ár, sagði í síðustu viku að herforingjastjórnin hafi engan áhuga á að koma til móts við alþjóðasamfélagið. Þá verði ólíklegra með hverjum deginum að hægt verði að snúa þróuninni í landinu við.
Herforingjastjórnin hefur sakað sendifulltrúana um að hafa stuðst við óáreiðanlegar dánartölur í skýrslu sinni, hafi sakað stjórnina um ýmislegt misjafnt án þess að færa fyrir því sönnur og að hafa gert lítið úr meintu ofbeldi sem almenningur hafi beitt í atlögum gegn hernum. Þá hafi það ekki verið tekið fram í skýrslunni að herinn hafi tekið völd vegna kosningasvindls sem hafi verið framið í kosningum á síðasta ári.
Alþjóðastofnanir og samtök hafa í auknum mæli gagnrýnt framgang herforingjastjórnarinnar og tilkynnti ASEAN, Samband Suðaustur-Asíuríkja, í síðustu viku að yfirherforingi herforingjastjórnarinnar í Mjanmar fengi ekki að taka þátt í næstu ráðstefnu sambandsins.