Fræðslufundurinn átti að fara fram á fimmtudaginn næstkomandi að Guðrúnartúni 1, 4. hæð en þar er Fræðslusetur Eflingar til húsa. Þar áttu að vera fyrirlestur og umræður. En eftir tíðindi gærkvöldsins, þegar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði af sér auk Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra, hafa þeir sem nú ráða för innan verkalýðsfélagsins séð í hendi sér að fyrir slíkum fundi, undir slíkri yfirskrift, væri líklega ekki stemmning.
Eins og Vísir hefur greint frá gengur illa að fá upplýsingar frá Eflingu og þeim Sólveigu Önnu og Viðari um hvað gekk á og hvað muni taka við.
Ónefndur starfsmaður Eflingar hefur haft hraðar hendur og er nú unnið að því að afmá öll ummerki um fundinn á netinu. Til að mynda ef slegið er inn á leitarvélina Google „Betri vinnustaðamenning og betri samskipti – Efling stéttarfélag“ þá kemur einfaldlega upp melding sem segir: „Síðan fannst ekki.“
