Fótbolti

Fjölskylda Emils komin til Noregs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil Pálsson í leik með FH gegn SJK Seinajoki í Evrópudeildinni.
Emil Pálsson í leik með FH gegn SJK Seinajoki í Evrópudeildinni. epa/KIMMO BRANDT

Fjölskylda fótboltamannsins Emils Pálssonar er komin til Noregs. Hann fór í hjartastopp í leik Sogndal og Stjørdals/Blink í norsku B-deildinni í gær en var endurlífgaður á staðnum og fluttur með sjúkraþyrlu á háskólasjúkrahúsið í Haukeland í Björgvin.

Fjölskylda Emils er komin til Oslóar og bíður eftir flugi til Björgvins. Bróðir Emils, Stefán, staðfesti þetta við Vísi í morgun.

Fjölskyldan, eins og aðrir, bíða nú frekari fregna af Emil. Í samtali við Verdens Gang sagði Geir Inge Heggestad, upplýsingafulltrúi Sogndal, að leikmenn og starfsfólk félagsins hafi komið saman í morgun.

„Við höfum ekki enn fengið nýjar upplýsingar um líðan Emils, aðrar en þær að hann var með meðvitund þegar honum var flogið frá Sogndal til Haukeland í gærkvöldi. Við verðum að vera þolinmóð og bíða fregna. Þær koma í dag en við vitum ekki hvenær,“ sagði Heggestad.

Hann stóð í leikmannagöngunum og horfði á þegar Emil hné niður. Fyrst gerði hann sér ekki grein fyrir því hvað hafði gerst en að staðan væri alvarleg.

„Sumir héldu að hann væri að halda um nefið, eins og hann hefði fengið olnbogaskot eða eitthvað slíkt en ég sá fljótt að þetta var alvarlegra en það,“ sagði Heggestad.

Í frétt VG kemur fram að aðeins sjö sekúndur hafi liðið frá því dómari leiksins óskaði eftir aðstoð og þar til læknir Sogndal, Anders Rosø, kom Emil til aðstoðar.

„Þetta var mjög faglega unnið að mínu mati. Við höfum líka fengið góð viðbrögð við því hvernig brugðist var við,“ sagði Heggestad.

Fyrir tíu árum hné leikmaður Brann, Carl-Erik Torp, niður á sama velli. Heggestad segir að Sogndal búi að reynslunni frá því það gerðist og hún hafi komið í góðar þarfir í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×