Þetta sést á gervihnattamyndum sem birtar voru um helgina. Gervihnattarmyndirnar frá Taklamakan-eyðimörkinni sýna útlínur bandarísks flugmóðurskips og eftirlíkingar tveggja Arleigh Burke eldflauga-tundurspilla, samkvæmt greiningu U.S. Naval Institute.
Myndirnar sýna einnig að minnst einu líkani hefur verið komið fyrir á stórum lestarteinum sem sérfræðingar segja notað til að æfa það að skjóta á skip á siglingu, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Herafli Kína hefur á undanförnum árum gegnið í gegnum mikla nútímavæðingu og uppbyggingu. Mikið púður hefur verið lagt í þróun langdrægra eldflauga sem eru hannaðar til að granda flugmóðurskipum og öðrum herskipum Bandaríkjanna.
Eldflaugar þessar geta grandað skotmörkum í þúsunda kílómetra fjarlægð frá skotstað.
Kínverjar gerðu fyrstu tilraunirnar með þessar eldflaugar árið 2019 þegar sex eldflaugum var skotið í sjóinn skammt frá Spratly-eyjum í Suður-Kínahafi. Kína hefur gert ólöglegt tilkall til nánast alls hafsins.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna birti í síðustu viku skýrslu um herafla Kína þar sem segir að geta þessara eldflauga hafi aukist til muna á undanförnu. Frá meginlandinu geti Kínverjar gert árásir víðsvegar um Asíu, á Indlandshafi og í Kyrrahafinu.
Þá hafa fregnir borist af því að Kínverjar hafi þróað eldflaugar sem hannaðar eru til að granda skipum og geta verið bornar af sprengjuflugvélum til að auka drægni þeirra.
AP fréttaveitan segir starfsmenn Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna hafa sífellt meiri áhyggjur af ætlunum Kínverja varðandi Taívan. Kína gerir tilkall til eyríkisins og forsvarsmenn Kommúnistaflokks Kína hafa heitið því að Taívan verði sameinað meginlandinu og mögulega með valdi.
Bandaríkin og önnur ríki hafa heitið því að koma Taívan til aðstoðar geri Kína árás á eyríkið. Þær eldflaugar sem Kínverjar eru að þróa og hafa þróað gætu verið notaðar til að granda flugmóðurskipum Bandaríkjanna í Kyrrahafinu eða koma í veg fyrir að hægt væri að nota þau til að aðstoða Taívan.
